Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Rúmum 400 milljónum kr. úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur úthlutað rúmum 400 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra til uppbyggingar og endurbóta á hjúkrunarheimilum um land allt. Úthlutunin er í samræmi við tillögu stjórnar sjóðsins.

„Það er kraftur í uppbyggingu þessarar mikilvægu þjónustu við aldraða. Miklar endurbætur hafa átt sér stað á síðustu misserum sem bæta aðbúnað og aðstæður fólks sem ekki er fært um að búa lengur heima, samhliða nýframkvæmdum. Þá er ekki síður mikilvæg sú uppbygging sem felst í fjölgun dagdvalarrýma, því í þeim felst þjónusta sem tvímælalaust lengir möguleika aldraðra til að búa heima þótt þeir þurfi mikinn stuðning og það er jú það sem flestir vilja allra helst“ segir heilbrigðisráðherra.

Af einstökum framlögum rennur stærsta fjárhæðin til viðbyggingar eldhúss Hrafnistu og endurnýjun búnaðar þar, en þar verður framleiddur matur fyrir íbúa allra Hrafnistuheimilanna. Sömuleiðis renna framlög til endurnýjunar búnaðar í eldhúsum Eirar og hjá Öldrunarheimilum Akureyrar. Samanlagt eru þetta tæpar 200 milljónir króna.

Tæpar 70 milljónir króna fara í framkvæmdir sem snúa að því að færa aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum í nútímalegt horf með breytingu á fjölbýlum í einbýli með snyrtingu. Enn fremur er tæpum 50 milljónum króna varið í fjölgun dagdvalarrýma og bætta aðstöðu á Sólvangi í Hafnarfirði og vegna breytinga á hjúkrunardeild í dagdeild fyrir heilabilaða á Hrafnistu. Að öðru leyti er um lægri fjárhæðir að ræða sem renna til smærri viðhaldsverkefna og endurbóta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira