Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra á ráðstefnu um fjölmiðlafrelsi

Utanríkisráðherra undirritar yfirlýsingu um fjölmiðlafrelsi - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tók þátt í ráðstefnu um fjölmiðlafrelsi sem fram fór í Lundúnum og lauk nú síðdegis. Ráðstefnan var skipulögð af breskum og kanadískum stjórnvöldum og miðar að því að efla aðgerðir til að sporna við vaxandi hættu sem steðjar að fjölmiðlafólki um allan heim.

Ráðherra tók meðal annars þátt í pallborðsumræðum um öryggi blaðamanna þar sem hann lagði áherslu á að ríki létu til sín taka á vettvangi alþjóðastofnana. Nefndi hann sérstaklega frumkvæði Íslands í mannréttindaráðinu í málefnum Filippseyja og Sádi-Arabíu.

Í gærkvöldi tók Guðlaugur Þór einnig þátt í vinnukvöldverði í boði utanríkisráðherra Bretlands, Jeremy Hunt, og umræðum ráðherra um hvernig halda skuli fjölmiðlafrelsi á lofti, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Þá var undirrituð yfirlýsing um fjölmiðlafrelsi og mikilvægi þess.
 
„Fjölmiðlafrelsi er grundvöllur lýðræðissamfélags og mikilvæg mannréttindi. Víða er vegið að öryggi blaðamanna og fjöldi blaðamanna sem lætur lífið við störf sín á ári hverju. Ísland hefur látið að sér kveða í mannréttindamálum og þarna er bein tenging á milli. Þar sem mannréttindi eru ekki virt er sérstaklega hættulegt að segja sannleikann,“ sagði Guðlaugur Þór. 
 
Utanríkisráðherra átti einnig nokkra tvíhliða fundi í tengslum við ráðstefnuna. Á fundi með Chris Skidmore, vísinda-, háskóla- og orkumálaráðherra Bretlands, var rætt um framtíðarsamstarf ríkjanna á sviði vísinda- og menntamála og á fundi með Nikola Mladenov, utanríkisráðherra Norður-Makedóníu, voru málefni Atlantshafsbandalagsins helst til umfjöllunar. Þá átti Guðlaugur Þór stuttan fund með Pavle Goranovic, menningarmálaráðherra Svartfjallalands.  

  • Utanríkisráðherra tók þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum