Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2019 Forsætisráðuneytið

Verkefnisstjórn um aðgerðir Íslands vegna fjórðu iðnbyltingarinnar

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur ákveðið að skipa verkefnisstjórn um aðgerðir Íslands vegna fjórðu iðnbyltingarinnar. Verkefni hennar verður að koma fram með 20 til 30 aðgerðir sem marki fyrstu skref Íslands til móts við þær breytingar sem í farvatninu eru með fjórðu iðnbyltingunni.

Skýrslu nefndar um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna var skilað í lok febrúar á þessu ári. Forsætisráðuneytið fylgdi skýrslunni úr hlaði með málþingi um efni hennar auk þess sem haldnar hafa verið margar kynningar um efnið. Þessum fyrsta áfanga í vinnunni er því lokið. Á grunni skýrslunnar hafa stjórnvöld skilgreint eftirfarandi fjögur markmið:

  • Að á Íslandi sé framsækið menntakerfi sem taki mið af þörfum framtíðarinnar fyrir þekkingu á tilteknum sviðum.
  • Að undirbúa atvinnulífið til að nýta þau tækifæri sem felast í fjórðu iðnbyltingunni. 
  • Að til staðar sé kerfi sem ýti undir nýsköpun í atvinnulífinu til að mæta framtíðarþróun í tæknimálum.
  • Að innviðir stjórnkerfisins styðji betur við notkun gagna til stefnumótunar.

Við vinnu sína skal verkefnisstjórnin taka tillit til efnis sem þegar hefur verið unnið og vinnu annarra aðila, s.s. greiningar Vísinda- og tækniráðs á samfélagslegum áskorunum og vinnu framtíðarnefndar forsætisráðherra. Þegar tillögurnar liggja fyrir mun verkefnisstjórnin kynna drög að aðgerðum fyrir Samráðsvettvang um aukna hagsæld.

Verkefnisstjórnina skipa:

Huginn Freyr Þorsteinsson, formaður verkefnisstjórnar.
Stefanía Halldórsdóttir.
Hjálmar Gíslason.
Henný Hinz.
Lilja Dögg Jónsdóttir.
Ásdís Jónsdóttir.
Einar Birkir Einarsson.

Verkefnisstjórnin mun skila tillögum að aðgerðum fyrir lok 30. nóvember nk.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira