Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áform um lagabreytingar vegna stuðnings stjórnvalda við lífskjarasamninga í samráðsgátt

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt í samráðsgátt áform um þrenns konar lagabreytingar sem eru hluti af stuðningi stjórnvalda við lífskjarasamningana. Fela þau í sér úrræði til að auðvelda húsnæðiskaup, til að jafna stöðu launþega á lífeyrismarkaði og skref í átt til að afnáms verðtryggingar.

Í drögum að frumvarpi til breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, er um að ræða skref til afnáms verðtryggingar sem fela í sér að:

  • Hámarkstími verðtryggðra jafngreiðslulána til neytenda verði 25 ár. Þó verði áfram heimilt að veita slík fasteignalán til lengri tíma en 25 ára að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.  
  • Lágmarkstími verðtryggðra jafngreiðslulána til neytenda verði 10 ár í stað fimm.
  • Heimilt verði að velja hvort vísitala neysluverðs eða vísitala neysluverðs án húsnæðis sé grundvöllur verðtryggingar sparifjár og lánsfjár. Grundvöllur verðtryggingar í neytendalánum og fasteignalánum til neytenda skuli vera vísitala neysluverðs án húsnæðis.
  • Hagstofu Íslands verði skylt að reikna og birta vísitölu neysluverðs án húsnæðis með sama hætti og henni er í dag skylt að reikna og birta vísitölu neysluverðs.

Í áformum um breytingar á lögum um lífeyrismál er m.a. að finna:

  • Lögfestingu á 15,5% lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóðs.

  • Lögfestingu á ákvæðum um tilgreinda séreign.

Í gildandi lögum er lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs a.m.k. 12%. Til að öllum sjóðfélögum verið heimilað að ráðstafa 3,5% iðgjaldsins í tilgreinda séreign þykir nauðsynlegt að lögin endurspegli hvert lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs þarf að vera til að öflun réttinda í tilgreindri séreign verði heimiluð. Þá er hvergi að finna í lögunum ákvæði er kveður á um tilgreinda séreign. Um nýmæli í lögum verður því að ræða til að taka af allan vafa um heimild sjóðfélaga til öflunar þessara réttinda.

  • Heimild til að nýta tilgreinda séreign til húsnæðiskaupa.

Lögfesting á tilgreindri séreign eykur heimildir einstaklinga til réttinda í séreignarsparnaði. Jafnframt er ráðgerð lagasetning þar sem kveðið verður á um skattfrjálsa heimild til að ráðstafa tilgreindri séreign, að hluta eða öllu leyti og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, til kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæði.

  • Til viðbótar við yfirlýsingu stjórnvalda til stuðnings lífskjarasamningum, er einnig í drögunum lagt til að lífeyrissjóðir fái heimild til rafrænnar birtingar greiðsluyfirlita iðgjalda sjóðfélaga og upplýsinga um væntanleg lífeyrisréttindi sjóðfélaga, en núgildandi lagaákvæði bindur rafræna birtingu lífeyrissjóða við samþykki sjóðfélaga. Fyrrnefndar upplýsingar hafa hingað til verið sendar sjóðfélögum með bréfpósti á hálfs árs fresti eða einu sinni á ári við mikinn kostnað lífeyrissjóða. Með vísan til mikilvægis upplýsinganna fyrir einstaklinga hafa lífeyrissjóðir óskað eftir því að öðlast aðgang að pósthólfi island.is með það að leiðarljósi að upplýsingarnar verði birtar sjóðfélögum þar eða á uppgefið netfang sjóðfélaga. Breyting í þessa veru er í samræmi við aukna áherslu stjórnvalda á rafræn samskipti og auknar kröfur almennings um aukið framboð af stafrænni þjónustu. Þeir sjóðfélagar sem óska annars konar birtingar myndu eftir sem áður geta fengið upplýsingarnar sendar á pappírsformi.

Áform um breytingar á lögum um fyrstu kaup fela í sér:

  • Skattfrjálsa nýtingu á tilgreindri séreign til húsnæðiskaupa.

Ætlunin er að kveðið verði á um tímabundna skattfrjálsa heimild til ráðstöfunar tilgreindrar séreignar (að hámarki 3,5% af lágmarkiðgjaldi til lífeyrissjóðs) við kaup á fyrstu íbúð til handa þeim einstaklingum sem ekki ná upp í hámarksfjárhæð núgildandi laga um fyrstu kaup (nú 500 þúsund krónur á ári), að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Áformin fela í sér að heimild til núgildandi skattfrjálsrar ráðstöfunar allt að 6% viðbótariðgjalds til séreignarsparnaðar, til kaupa á fyrstu íbúð, verði útvíkkuð á þann hátt að einstaklingi verði að auki heimiluð skattfrjáls ráðstöfun 3,5% af lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóðs til kaupa á fyrstu íbúð eða samtals 9,5% af iðgjaldsstofni. Til skoðunar er að heimildin taki til einstaklinga með ákveðinn árlegan tekjuskattsstofn og að þar undir falli einstaklingar sem ná ekki gildandi fjárhæðarmarki laganna með samanlagt 6% viðbótariðgjaldi til séreignarsparnaðar. Þá er gert ráð fyrir að heimildin gildi fyrir tímabundið samfellt tímabil frá því að umsókn þar um berst og að árleg skattfrjáls heimild einstaklings takmarkist við ákveðna hámarksfjárhæð við nýtingu úrræðisins.

  • Úrræði fyrir þá sem ekki hafa átt íbúðarhúsnæði sl. fimm ár.

Markmiðið er að auðvelda einstaklingum sem ekki hafa átt íbúðarhúsnæði í fimm ár, að eignast húsnæði, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Til skoðunar er að binda heimildina við að um fimm ára samfellt tímabil sé að ræða, að umsækjendur hafi ekki fullnýtt gildandi úrræði áður og að heimildin taki til einstaklinga með ákveðinn árlegan tekjuskattsstofn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira