Hoppa yfir valmynd
3. ágúst 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íslenska kennd í yfir 100 erlendum háskólum

Fundur sendikennara í íslensku við erlenda háskóla stendur nú yfir í Manitobaháskóla í Winnipeg í Kanada. Íslenskudeild hefur verið starfrækt við skólann síðan 1951 en hann er einn af rúmlega 100 háskólum víða um heim þar sem íslenska er kennd en að auki fer þar fram kennsla í íslenskum bókmenntum.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnti við þetta tilefni aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda um eflingu íslensku sem opinbers máls en í vor samþykkti Alþingi samhljóða þingsályktunartillögu í 22 liðum þess efnis. Í henni er meðal annars lögð áhersla á að styrkja stoðir íslenskukennslu á erlendri grundu til dæmis með því að nýta nýjustu tækni til hagsbóta fyrir þá fjölmörgu sem vilja læra íslensku, með sérstakri áherslu á börn og ungmenni.

Ráðherra fundaði einnig með Peter J. Buchan forstöðumanni íslenskudeildarinnar og Digvir Jayas aðstoðarrektor Manitobaháskóla og kynnti sér íslenska bókasafnið (e. Icelandic Collection) í skólanum en það hefur að geyma hátt í 30.000 bindi sem gerir það eitt stærsta safn íslenskra prentgripa utan Íslands.

,,Það er virkilega ánægjulegt að sjá þann metnað sem einkennir starf íslenskudeildarinnar við Manitobaháskóla og þá flottu umgjörð sem henni hefur verið búin. Deildin varð til að frumkvæði fólks af íslenskum ættum sem lét sér annt um tengslin við Ísland. Íslensk stjórnvöld munu halda áfram að styðja við íslenskukennslu á erlendri grundu og rækta sérstaklega hið einstaka samband sem við eigum við Íslendingasamfélögin hér í Vesturheimi,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Samstarfssamningur milli Háskóla Íslands og Manitobaháskóla hefur verið í gildi frá árinu 1999. Síðan þá hafa Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Háskólinn á Hólum og Háskólinn á Bifröst einnig gert samstarfssamninga við Manitobaháskóla.

Fyrirlestur ráðherra er hluti af heimsókn hennar í til Vesturheims í tengslum við Íslendingahátíðarnar í Mountain í Norður-Dakota og Gimli í Manitoba þar sem hún verður heiðursgestur. Með í för ráðherra er Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum