Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Barátta gegn landeyðingu mikilvæg gegn loftslagsvánni

  - myndBergþóra Njála

Ný skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) segir að brýnt sé að stöðva eyðingu skóga og jarðvegs til að sporna við losun gróðurhúsalofttegunda og efla viðnám vistkerfa gegn loftslagsvánni. Loftslagsbreytingar ógna vistkerfum á landi og fæðuöryggi mannkyns. Aðgerðir í aðgerðaáætlun stjórnvalda um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála  falla vel að niðurstöðum IPCC.

Skýrsla IPCC ber heitið „Landnotkun og loftslagsbreytingar af mannavöldum“ og þar er sjónum beint sérstaklega að afleiðingum loftslagsbreytinga á vistkerfi á landi og þætti landnotkunar í losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Landnotkun og landbúnaður eru ábyrg fyrir nær fjórðungi af losun á heimsvísu, sem kallar m.a. á aðgerðir á sviði skógræktar og landgræðslu, vistvænni landbúnaðar og minni matarsóunar.

Hlýnun andrúmslofts er meiri yfir landi en hafi og er ekki síst merkjanleg á norðurslóðum, þar sem sífreri hopar, búsvæði lífvera færast norðar og skógar verða fyrir aukinni röskun af völdum skógarelda, þurrka, skordýraplága og gróðursjúkdóma. Útbreiðsla votlendis á heimsvísu hefur minnkað um 70% frá 1970. Losun tengd landnýtingu af mannavöldum hefur aukist, m.a. vegna skógareyðingar og aukins landbúnaðar. Losun metans frá jórturdýrum hefur aukist 1,7-falt frá 1961 og losun hláturgass (N2O) frá áburði tvöfaldast á sama tíma.

Mikil áhersla á aðgerðir í landnýtingu á Íslandi

Aðgerðir tengdar landnýtingu hafa lengi verið stór þáttur í loftslagsstefnu Íslands. Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar eru auknar aðgerðir á því sviði önnur af tveimur megináherslum. Í júlí sl. voru kynntar aðgerðir um bætta landnýtingu í þágu loftslagsmála, þar sem gert er ráð fyrir verulegri eflingu kolefnisbindingar úr andrúmslofti, með aukinni skógrækt og landgræðslu og fleiri aðgerðum, sem ráðist verður í næstu fjögur árin. 

Áætlað er að árlegur loftslagsávinningur af nýjum aðgerðum í kolefnisbindingu hér á landi og endurheimt votlendis verði um 50% meiri árið 2030 miðað við núverandi umfang. Ávinningurinn verður um 110% meiri árið 2050 eða um 2,1 milljón tonn af CO2. Auk kolefnisbindingar er aðgerðunum ætlað að vinna gegn landhnignun og efla líffræðilega fjölbreytni með endurheimt vistkerfa, svo sem votlendis, birkiskóga og víðikjarrs og fjölbreyttri skógrækt. Aðgerðir af þessu tagi falla vel að niðurstöðum nýrrar skýrslu IPCC.

Á heimsvísu hefur Ísland tekið loftslagsmál upp innan Eyðimerkursamnings SÞ og fengið tillögur samþykktar varðandi landgræðslu og vernd og endurheimt votlendis á vettvangi Loftslagssamnings SÞ. Ísland rekur Landgræðsluskóla SÞ. hér á landi, sem þjálfar sérfræðinga í þróunarríkjum til að takast á við landeyðingu og losun tengdri henni.

Frekari upplýsingar um hina nýju skýrslu IPCC er að finna á heimasíðu Veðurstofu Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum