Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2019 Innviðaráðuneytið

Þingsályktunartillaga um stefnu ríkisins í málefnum sveitarfélaga birt í samráðsgátt

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur birt til umsagnar tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 í samráðsgátt stjórnvalda. Er þetta í fyrsta sinn sem slík heildstæð stefna á vegum ríkisins er mótuð fyrir sveitarstjórnarstigið. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar. Frestur til að skila umsögn er til og með 10. september 2019. Stefnt er að framlagningu þingsályktunartillögunnar á Alþingi í byrjun október.

Í sveitarstjórnarlögum er kveðið á um það að ráðherra sveitarstjórnarmála skuli að minnsta kosti á þriggja ára fresti leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga til fimmtán ára í senn. Í áætluninni skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára á þessu sviði. Um er að ræða nýmæli sem er hliðstæð annarri áætlanagerð á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Meginmarkmið stefnumótandi áætlunar í málefnum sveitarfélaga er að draga saman meginþætti langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi. 

Í upphafi þessa árs var skipaður starfshópur til að undirbúa stefnumótunina og í apríl var lögð fram grænbók um stefnu í málefnum sveitarfélaga. Hún var birt í samráðsgátt stjórnvalda en með því gat almenningur og hagsmunaaðilar komið á framfæri sínum sjónarmiðum sínum sem nýst gætu við stefnumótunina. Alls bárust 24 umsagnir, flestar frá sveitarstjórnum eða byggðaráðum þar sem grænbókin hafði verið til umfjöllunar, nokkrar frá einstaklingum og þrjár frá samtökum.

Í þingsályktunartillögunni er áhersla einkum lögð á tvö meginmarkmið. Það fyrra snýr að sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra og það seinna lýtur að sjálfsstjórn sveitarfélaga og ábyrgð þeirra, m.a. við að tryggja sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Skilgreindar eru áherslur við hvort markmið um sig, sem geta leitt til skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum.

Í tillögu að aðgerðaáætlun til næstu fimm ára (2019-2023) eru kynntar 11 skilgreindar aðgerðir sem eiga að tryggja framgang markmiða áætlunarinnar. Aðgerðirnar ellefu eru:

 1. Lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga. Lagt er til að lágmarksíbúafjöldi verði 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum árið 2022 en 1.000 frá kosningum árið 2026.
 2. Fjárhagslegur stuðningur við sameiningar. Reglum Jöfnunarsjóðs verði breytt til að tryggja aukinn stuðning við sameiningar sveitarfélaga og heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði fyrir árið 2022.
 3. Tekjustofnar sveitarfélaga. Greinargerð verði unnin um núverandi tekjustofnakerfi til að meta hvaða tekjustofnar gætu færst á milli ríkis og sveitarfélaga og nýir tekjustofnar sveitarfélaga kannaðir. Gistináttagjald verði flutt til sveitarstjórna á kjörtímabilinu í tengslum við viðræður ríkis og sveitarfélaga um endurskoðun tekjustofna.
 4. Fjármál og skuldaviðmið. Skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga fyrir A-hluta sveitarsjóða verði lækkað í 100% með tíu ára aðlögunartíma.
 5. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga. Aðgerðaáætlun mótuð um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að meta hvort og hvaða verkefni rétt væri að flytja frá ríki til sveitarfélaga eða öfugt.
 6. Landshlutasamtök sveitarfélaga og samvinna sveitarfélaga. Staða og hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga verði skýrð og unnið verði í samræmi við tillögur starfandi ráðherraskipaðrar nefndar um starfsemi landshlutasamtaka.
 7. Samskipti ríkis og sveitarfélaga. Unnið verði að því að greina kosti þess að koma á fót nefnd eða gerðardómi að norrænni fyrirmynd sem taki fyrir ágreiningsmál sem upp kunna að koma í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, og ekki eru falin öðrum stjórnvöldum til úrlausnar.
 8. Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa verði bættar og gætt að kynjajafnrétti sveitarstjórnarfólks. Lagt er til að greining verði unnin á starfsaðstæðum hér á landi í samanburði við aðstæður í nágrannalöndum á Norðurlöndum.
 9. Lýðræðislegur vettvangur.
  Lagt er til að komið verði á fót lýðræðislegum vettvangi sveitarfélaganna til að tryggja íbúum sveitarfélaga og þeim sem njóta þjónustu þeirra möguleika á að taka þátt í og hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins og undirbúning stefnumótunar.
 10. Stafræn stjórnsýsla sveitarfélaga.
  Ráðist verði í átak til að efla stafræna stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélaga og komið á miðlægu kerfi sveitarfélaga til að efla samstarf þeirra á svipi upplýsingatækni.
 11. Fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.
  Átak verði gert í fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og atvinnugrundvöllur í nýsameinuðum sveitarfélögum styrktur.

Unnið er að því að kostnaðarmeta einstakar aðgerðir og því er ekki gerð grein fyrir kostnaði í tillögunni eins og hún liggur fyrir

Í greinargerð þingsályktunartillögunnar segir farsæl framkvæmd á stefnu og aðgerðum í málefnum sveitarfélaga ráðist af nánu samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Jafnframt þurfi að tryggja samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera og náið samstarf ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd stefnunnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira