Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2019 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Hringnum lokað

Greinin birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 14. júlí 2019

Fyrir nákvæmlega 45 árum og mánuði síðan, 14. júlí 1974, var blásið í lúðra við Skeiðarárbrú sem lauk með dansleik á palli fram eftir kvöldi. Tilefnið var vígsla brúarinnar en með henni var hringnum lokað og Hringvegurinn, sem tengir byggðir umhverfis landið, formlega opnaður. Skeiðarárbrú var án nokkurs efa ein mesta samgöngubót Íslendinga, fyrr og síðar. Upp frá þeim tíma var ekkert sem gat hamlað greiðri för bifreiða hringinn í kringum landið og vegasamgöngur tóku stakkaskiptum. 

Í framhaldi var fljótlega farið að leggja bundið slitlag á þjóðvegi víðs vegar um landið. Nú fjórum áratugum seinna er tímabært og ánægjulegt að hafa lokið því brýna verkefni að leggja slitlag á allan hringinn með nýjum vegarkafla um Berufjarðarbotn. Það kann að hljóma undarlega í eyrum margra að ekki hafi verið komið bundið slitlag á allan hringinn fyrir löngu síðan og má tína til margar ástæður fyrir því. 

Skiptar skoðanir um leiðir

Þjóðvegakerfið er viðamikið, um 13 þúsund kílómetrar, og fyrir fámenna þjóð kostar mikla fjármuni að byggja það upp svo uppfylli megi lámarkskröfur. Á undanförnum árum hafa fjármunir verið af enn skornari skammti og forgangsröðun vegaframkvæmda verið í þágu umferðaröryggis þar sem umferðin er mest. Undirbúningur að þessum lokakafla hringvegarins á sér langan aðdraganda og má rekja til ársins 2007. Skiptar skoðanir voru um leiðir um Berufjarðarbotn sem seinkaði undirbúningi verksins, en niðurstaðan var þessi nýi vegkafli sem ég held að við getum öll verið ánægð með. 

Flókinn undirbúningur

Það leiðir hugann að öðrum brýnum vegaframkvæmdum sem hafa dregist úr hófi. Undirbúningur nýrrar veglínu er mun flóknari í dag, ferlið langt þar sem margir aðilar og stofnanir koma að málum, s.s. skipulagsyfirvöld, landeigendur og íbúar.  Stjórnsýsluferlið er því flókið og getur leitt af sér ófyrirséðar niðurstöður með tilheyrandi seinkunum á samgöngubótum. Hverjar sem ástæðurnar kunna að vera koma þær nær oftast niður á almenningi og fyrirtækjum á svæðinu. 

Ný samgönguáætlun

Frá því að hringnum var lokað hefur vegakerfið batnað umtalsvert undanfarna áratugi. Mikið verk er þó óunnið sem brýnt er að hraða eins og kostur er. Umferð á vegum hefur aukist mjög hratt á síðustu árum með en vegakerfið er víða við þolmörk vegna umferðar og ber þess merki. Í stjórnarsáttmálanum var sammælst um stórsókn í samgöngumálum og verður um 120 milljörðum kr. varið úr ríkissjóði til framkvæmda á vegakerfinu á næstu fimm árum. Þess fyrir utan hefur verið leitað allra leiða til að hraða vegaframkvæmdum enn frekar og mun ég leggja fram endurskoðaða fimm ára samgönguáætlun núna í haust á Alþingi. Þar ber hæst stærri framkvæmdir sem mætti flýta, en verða gjaldskyldar að þeim loknum. Gert er ráð fyrir sérstakri jarðgangaáætlun og er miðað við að hafin verði hófleg gjaldtaka til þess að standa straum af kostnaði við rekstur og viðhald þeirra. Þá er markmið að gera umferð á höfuðborgarsvæðinu skilvirkari og er ljóst að ríki og sveitarfélög geta ekki borið nema að hluta til fyrirhuguð samgöngumannvirki, umferðargjöld muni því renna til verkefnanna. 

Næstu ár

Öryggi er sem fyrr leiðarljósið í öllum framkvæmdum og er stærsta verkefnið að auka öryggi í umferðinni. Markmið til lengri tíma er að stytta vegalengdir og tengja byggðir með bundnu slitlagi sem er eðlilegt framhald eftir að hafa lokað hringnum. Tilgangurinn er skýr; að efla atvinnusvæði og búsetu um land allt til að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði og öflug sveitarfélög. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira