Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra styrkir Blindrafélagið í tilefni 80 ára afmælis

 Sigþór Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins, tók við styrknum á hátíðarsamkomu félagsins í dag. - mynd

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, fagnar áttatíu ára afmæli í dag. Félagið vinnur að hagsmuna- og félagsmálum blindra og sjónskertra, rekur Blindravinnustofuna og veitir margvíslega þjónustu, fræðslu og jafningjastuðning.

Á liðnum árum hefur Blindrafélagið unnið markvisst að því að fjölga leiðsöguhundum til að mæta þörfum félagsmanna sinna. Í tilefni dagsins veitti Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, félaginu þriggja milljón króna styrk til kaupa og þjálfunar á leiðsöguhundi. Var styrkurinn formlega afhentur á hátíðarsamkomu félagsins á Hilton Reykjavík Nordica nú fyrir stundu.

„Fyrir liggur greinargóð skýrsla Blindrafélagsins og Þjónustu og þekkingarmiðstöðvarinnar blindra og sjónskertra og einstaklinga með samþætta sjón og heyrnarskerðingu um hvernig staðið hefur verið að þjálfun, fjármögnun og úthlutun á leiðsöguhundum. Þar er jafnframt að finna tillögur til framtíðar,” sagði Ásmundur Einar þegar hann ávarpaði gesti.

Hann sagði áratugahefð fyrir því að blindir og sjónskertir um nánast allan heim nýti hunda í daglegu lífi til þess að komast á milli staða. „Leiðsöguhundar eru þannig afar mikilvægir til að tryggja aukið sjálfstæði blindra og aðlögun þeirra að samfélaginu.“

Ásmundur Einar sagðist á þessum merku tímamótum vilja leggja leiðsöguhundaverkefninu svokallaða lið með sérstöku styrktarframlagi og flýta þannig fyrir framvindu þess. Hann upplýsti einnig að hann hyggst stofna sérstakan samráðshóp sem fær það hlutverk að vinna að framþróun verkefnisins með tilliti til þeirra tillagna sem komu fram í fyrrnefndri skýrslu.

Ásmundur Einar sagði Blindrafélagið alla tíð hafa vakað yfir þörfum félagsmanna og fjölskyldna þeirra og stöðugt leitað leiða til að sækja fram á við með það að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður blindra á Íslandi.

„Með starfi sínu hefur Blindrafélagið jafnframt stuðlað að því að tryggja samræmda heild í þjónustunni þar sem ríki, sveitarfélög og hagsmunasamtök notenda hafa tekið höndum saman til þess að ná sem bestum árangri. Það hefur verið okkar gæfa að allir þessir hagsmunaaðilar hafa verið samstíga og heils hugar í þeirri vegferð.“

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum