Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2019 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherrar Norðurlandanna og norrænir forstjórar í samstarf um loftslagsmál

Forsætisráðherrar Finnlands, Íslands, Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar - myndSigurjón Ragnar

Forsætisráðherrar Norðurlandanna og hópur norrænna forstjóra, Nordic CEOs for a Sustainable Future, skrifuðu undir yfirlýsingu um samstarf með það að markmiði að sporna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. 

Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að mest aðkallandi séu samvinna og sameiginlegar aðgerðir sem beint er að loftslagsbreytingum, betri neysluhegðun og framleiðsla og um leið verði að tryggja jafnara og sanngjarnara samfélag.

Skrifað var undir viljayfirlýsinguna á blaðamannafundi að loknum fundi ráðherranna og forstjóranna í Hörpu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Öflugt samstarf og samstilltar aðgerðir atvinnulífs og stjórnvalda eru lykill að árangri í loftslagsmálum. Það er ánægjulegt að finna sterkan vilja atvinnulífsins til að gera betur og stjórnvöld vænta mikils af því samstarfi. Við verðum að gera meira og hraðar til að ná okkar markmiðum fyrir árið 2030. Loftslagsbreytingar koma verr niður á fátækum en ríkum og snerta konur á annan hátt en karla. Mannréttindi, félagslegt réttlæti og jafnrétti kynjanna eru því samtengd loftslagsmálum og allar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum verða að taka mið af því.“

Í hópnum eru 14 fyrirtæki á Norðurlöndum sem hafa tilkynnt um samstarf sitt um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna undir yfirskriftinni „Nordic CEOs for a Sustainable Future“.

Fundurinn með forstjórunum er í tengslum við sumarfund forsætisráðherra Norðurlandanna. Einnig verður fundað með leiðtogum Álandseyja og Grænlands í tengslum við sumarfundinn. Fjallað verður m.a. um loftslagsmál og umhverfismál almennt, nýja framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar til næstu 10 ára, málefni Norðurslóða, stöðu mannréttindamála, þ.m.t. jafnréttismála, stöðu alþjóðamála og öryggismál. Sérstaklega verður horft til tækifæra til þess að auka samstarf Norðurlandanna og Þýskalands til að takast á við áskoranir á alþjóðavettvangi, ekki hvað síst afleiðingar loftslagsbreytinga og stuðning við sjálfbæra þróun.

Fundirnir og heimsóknir sem þeim tengjast eru m.a. í Hörpu, Viðey, við Hellisheiðarvirkjun, á Þingvöllum og á Gljúfrasteini.

 

Viljayfirlýsing forsætisráðherra Norðurlandanna og hóps norrænna forstjóra

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
 Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira