Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra heimsækir Grænland

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra  ásamt Ane Lone Bagger utanríkisráðherra Grænlands - mynd
Guðlaugur Þór Þorðarson, utanríkisráðherra átti í dag fund með Ane Lone Bagger sem fer með utanríkismál í Grænlensku landsstjórninni. Hann er staddur í vinnuheimsókn á Grænlandi til að kynna sér starfsemi ýmissa fyrirtækja og sveitarfélaga en þónokkuð er um íslenskar fjárfestingar í þessum hluta landsins.

„Samskipti landanna hafa aukist jafnt og þétt að undanförnu og það er okkur mikilvægt að styrkja þessi tengsl. Íslenskir fjárfestar eiga þátt í því að byggja hér upp atvinnustarfsemi og það verður spennandi að kynna sér þessi fyrirtæki í framhaldinu,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ráðherrarnir ræddu tvíhliða samskipti þjóðanna, m.a. viðskipti og verslun, þ.m.t. aukin tækifæri í tengslum við flugsamgöngur og uppbyggingu ferðaþjónustu, sjóflutninga, aukið samstarf á sviði menntamála, menningar og lista, og samskipti á milli íslenskra og grænlenskra félagasamtaka, svo sem Hróksins, Rauða krossins, Kalak, vinafélags Grænlands á Íslandi og Ferðafélags Íslands. Ráðherrarnir ræddu einnig málefni norðurslóða og norrænt samstarf, en Ísland fer með formennsku í hvoru tveggja um þessar mundir. Þau ákváðu að efna til árlegs samráðsfundar sín á milli fyrsti fundur verður haldinn í tengslum við ársfund Vestnorræna ráðsins í Nuuk í október nk.

Fundurinn fór fram á suðurhluta Grænlands og þar heimsóttu þau einnig Nalunaq gullnámuna sem er rekin af kanadísku fyrirtækinu AEX Gold. Náman hefur ekki verið í vinnslu í einhver ár en nú er verið að taka námuna í notkun að nýju með nýrri og umhverfisvænni vinnusluaðferðum. Forstjóri fyrirtækisins er Eldur Ólafsson.

Í föruneyti Guðlaugs Þórs er einnig Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður starfshóps um aukin samskipti Íslands og Grænlands. Hann kynnti störf hópsins og þær hugmyndir sem þar hafa komið fram. Grænlenski ráðherrann brást vel við vinnu starfshópsins og kom með ráðleggingar og frekari hugmyndir sem ráðherrarnir voru sammála að unnið yrði frekar með.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum