Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2019 Innviðaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Samstarfsráðherra gestur á ungmennafundi um sjálfbæra þróun á Álandseyjum

Sigurður Ingi spjallar við ungmenni á ReGeneration 2030. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, flutti ávarp og stýrði málstofu á ReGeneration 2030, árlegum ungmennafundi á Álandseyjum, sem haldinn var um helgina. Aðgerðir í loftslagsmálum (heimsmarkmið 13), sjálfbær þróun og stjórnmálaástandið í heiminum voru efst á baugi á fundinum en þátttakendur koma frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum. Fundurinn var haldinn með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar.

Í ávarpi sínu kynnti Sigurður Ingi áherslumál Íslands á formennskuári í Norrænu ráðherranefndinni um ungt fólk, hafið og sjálfbæra ferðaþjónustu. Þá fjallaði hann ítarlega um nýja framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar til næstu tíu ára sem samþykkt var á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í síðustu viku. Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru í forgrunni í hinni nýju sýn og markmiðið að Norðurlöndin verði sjálfbærasta svæði í heimi árið 2030. Ráðherra sagði að Norðurlöndin yrðu að vinna náið saman að fleiri verkefnum og hraðar en áður til að ná árangri og settu marki.

Ráðherra sagði að það væri ekki síst vegna ákalls ungmenna á Norðurlöndum og víðar að stjórnmálamenn og stofnanir hafi tekið við sér og yrðu nú að bregðast hraðar við. Unga fólkið hefði vakið verðskuldaða heimsathygli á loftslagsvánni og afleiðingum hennar og vísað þannig veginn fyrir eldri kynslóðir.

Sigurður Ingi hvatti ungmennin á ráðstefnunni til að vera bjartsýn, láta áfram til sín taka í samfélagsmálum og setja þrýsting á stjórnvöld og stjórnmálafólk. Sjálfbær þróun og grænar lausnir væru framtíðin.

Í heimsókn sinni átti Sigurður Ingi einnig fund með Nina Fellman samstarfsráðherra Norðurlanda á Álandseyjum í höfuðstaðnum Maríuhöfn. Með í för var einnig Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands í Finnlandi.

  • Sigurður Ingi Jóhannsson og Nina Fellman samstarfsráðherra Norðurlanda á Álandseyjum áttu fund í Maríuhöfn. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum