Hoppa yfir valmynd
2. september 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Stutt við starf Rithöfundasambands Íslands

Karl Ágúst Úlfsson formaður Rithöfundasambands Íslands, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Ragnheiður Tryggvadóttir framkvæmdastjóri RSÍ.  - mynd
Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skrifuðu á dögunum undir samning þar sem kveðið er á um stuðning ráðuneytisins við starfsemi félagsins. Meðal verkefna félagsins samkvæmt samningnum er að kynna grunnskólanemendum og kennurum ólíkar tegundir bókmennta með heimsóknum höfunda í skóla, sinna alþjóðlegu samstarfi og halda úti upplýsingaþjónustu fyrir félagsmenn og almenning um sitthvað er lýtur að höfundum og höfundarétti og öðru er snertir starf rithöfunda.

„Rithöfundasambandið gegnir mjög mikilvægu hlutverki – rithöfundar bera uppi bókmenningu okkar sem á ríkan þátt í að varðveita og þróa tungumálið. Við höfum lagt sérstaka áherslu á að efla læsi og það kallar á samstarf við rithöfunda og RSÍ sem meðal annars staðið hefur að verkefninu „Skáld í skólum“. Það er brýnt samfélagslegt verkefni að efla læsi og tryggja framtíð íslenskunnar og þar stólum við á áframhaldandi frjótt samstarf við rithöfunda,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Félagsmenn Rithöfundasamband Íslands eru rithöfundar, handritshöfundar, leikskáld og þýðendur en tilgangur félagsins er meðal annars að gæta hagsmuna og réttar félagsmanna og verja frelsi og heiður bókmenntanna. Rithöfundasambandið er aðili að Bandalagi íslenskra listamanna, Norræna rithöfunda- og þýðendaráðinu, Evrópska rithöfundaráðinu, Baltneska rithöfundaráðinu og Alþjóðlega rithöfundaráðinu. Félagar í Rithöfundasambandi Íslands eru rúmlega 570.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira