Hoppa yfir valmynd
4. september 2019 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Aðildarríkjaþing Samnings SÞ um varnir gegn eyðimerkurmyndun hafið í Nýju Delí

Frá setningu aðildaríkjaþingsins. - mynd

Aðildarríkjaþing Samnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun (UNCCD) var sett í Nýju-Delí á mánudag. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra sækir ráðherrahluta þingsins í næstu viku. Loftslagsmál verða fyrirferðarmikil á þinginu og þær lausnir sem felast í bættri landnýtingu.

Eyðimerkursamningurinn, eins og hann er oft nefndur hér á landi, er einn af þremur samningum Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál. Hinir eru rammasamningur um aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum og samningur um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Ísland er aðili að öllum þessum þremur samningum.

Á þinginu verður áhersla lögð á mikilvægi þess að þróaðar verði leiðir til að takast á við landhnignun. Aukið þanþol vistkerfa er afar mikilvægt til að draga úr áhrifum náttúruhamfara eins og flóða og skriðufalla. Þá hefur land og nýting þess veruleg áhrif á aðra umhverfisþætti, s.s. loftslagið. Þannig veldur hnignun jarðvegs vegna ósjálfbærrar nýtingar því að gróðurhúsalofttegundir losna í miklum mæli út í andrúmsloftið á meðan sjálfbær landnýting og endurheimt vistkerfa leiðir til uppsöfnunar kolefnis í jarðvegi. Land er því hluti af lausninni við að draga úr loftslagsbreytingum og auka þanþol samfélaga gegn þeim. Á sama hátt ógnar landeyðing tilvist fjölmargra tegunda lífvera en endurheimt vistkerfa getur á hinn bóginn aukið og eflt líffræðilega fjölbreytni.

Búist er við að yfir 3.000 fulltrúar víðs vegar úr heiminum sæki aðildaríkjaþingið sem er 14. þing samningsins (COP14). Von er á ráðherrum frá 196 þjóðríkjum og sækir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ráðherrahluta þingsins. Hann mun m.a. stýra hringborðsumræðum um tengsl lands, loftslags og orku og ásamt Namibíu stýra fundi svokallaðs vinahóps (Group of friends) 23ja ríkja sem eiga samstarf um aðgerðir vegna þurrka, landhnignunar og eyðimerkurmyndunar.

Þinginu lýkur 14. september.

Fylgjast má með framvindu þingsins á vef samningsins. Jafnframt má fylgjast með vefútsendingu frá fundum á netinu. 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira