Hoppa yfir valmynd
7. september 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Hækkun til háskólanna og nýtt stuðningskerfi fyrir námsmenn

Undanfarin ár hafa framlög til háskólastigsins verið aukin töluvert og samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2020 er ráðgert að þau nemi rúmum 40 milljörðum kr. á næsta ári. Meginmarkmið stjórnvalda er að íslenskir háskólar og alþjóðlega samkeppnishæfar rannsóknastofnanir skapi þekkingu, miðli henni og undirbúi nemendur til virkrar þátttöku í þekkingarsamfélagi nútímans og til verðmætasköpunar sem byggist á hugviti, nýsköpun og rannsóknum. Að því markmiði er meðal annars unnið að með því að auka gæði náms og námsumhverfis í íslenskum háskólum, styrkja rannsóknastarf og umgjörð þess, og auka áhrif og tengsl háskóla og rannsóknastofnana.

Fjölgum kennurum

Meðal áhersluverkefna á málefnasviði háskólastigsins eru aðgerðir sem miða að fjölgun kennara. Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2020 er gert ráð fyrir 220 milljónum kr. til verkefnisins en meðal aðgerða sem að því miða eru námsstyrkir til kennaranema á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi.

Stuðningur við námsmenn
Í undirbúningi er nýtt stuðningskerfi fyrir námsmenn sem felur í sér gagnsærri og jafnari styrki til námsmanna. Námsaðstoðin sem sjóðurinn mun veita verður áfram í formi lána á hagstæðum kjörum og til viðbótar verða beinir styrkir vegna framfærslu barna og 30% niðurfelling á hluta af námslánum við lok prófgráðu innan skilgreinds tíma. Kerfið miðar að því að bæta fjárhagsstöðu háskólanema, ekki síst þeirra sem hafa börn á framfæri, og skapa hvata til að nemar klári nám sitt á tilsettum tíma. Mennta- og menningarmálaráðherra mun leggja fram frumvarp þessa efnis á haustþingi.

Gæði í háskólastarfi
Unnið er að heildstæðri menntastefnu Íslands til ársins 2030, þvert á skólastig. Á sviði háskóla stendur yfir endurskoðun á reglum um fjárveitingar til þeirra með það að markmiði að styðja betur við gæði í háskólastarfi. Þá er einnig unnið að gerð stefnu um starfsemi rannsókna-, fræða- og þekkingarsetra og ráðgert að birta og hefja innleiðingu á stefnu Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og rannsóknagögnum. Hækkun verður á framlögum til vísinda- og rannsóknasamstarfs samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2020, alls um 18%.

Alþjóðlegt samstarf
Ísland og Japan munu á árinu 2020 halda sameiginlega alþjóðlegan ráðherrafund um vísindi norðurslóða. Fundurinn fer fram í Tókýó í nóvember og verður það þriðji fundur sinnar tegundar. Brýn þörf er á öflugu alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir á norðurslóðum og mun þar gefast kjörið tækifæri fyrir Íslendinga til þess að miðla sínum áherslumálum og stefnu til alþjóðasamfélagsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira