Hoppa yfir valmynd
11. september 2019 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna í Borgarnesi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra stýrði fundi norrænu utanríkisráðherranna. Honum á hægri hönd situr nýskipaður utanríkisráðherra Svíþjóðar, Ann Linde. Mynd: Iris Dager. - mynd

Í dag hófust fundir utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem fram fara í Borgarnesi í dag og á morgun, 11.-12. september. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra býður til fundanna þar sem Ísland gegnir nú formennsku í utanríkismálasamstarfi ríkjanna. Sameiginlegum fundi norrænu ráðherranna lauk nú síðdegis en auk þess áttu ráðherrarnir tvíhliða fundi sín á milli.

Á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna var rætt um nýlega skýrslu um framkvæmd tillagna úr skýrslu Stoltenbergs frá 2009 um samstarf Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála. Að tillögu Íslands var ákveðið að vinna áfram að eflingu norræns samstarfs, nú með tilliti til nýrra ógna og margvíslegra breytinga á alþjóðavettvangi.

„Við eigum ríka samleið með Norðurlöndunum í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum og ég hef lagt mikla áherslu á að unnið verði markvisst að því að auka samvinnu á þessu sviði. Því er ánægjulegt að ákveðið hafi verið að hefja undirbúning að nýjum tillögum um hvernig samstarfinu verði best háttað,“ sagði Guðlaugur Þór. „Það má segja að norræna samstarfið sé grundvallarþáttur í okkar alþjóðasamstarfi enda fara hagsmunir okkar og gildi saman víðast hvar. Samstarfið er einkar gott á vettvangi alþjóðastofnana þar sem það styrkir rödd Norðurlandanna allra.“

Alþjóða- og öryggismál í víðara samhengi, málefni norðurslóða og Evrópumál voru einnig til umræðu. Norðurlöndin eiga með sér náið samstarf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og var sérstaklega rætt um með hvaða hætti megi standa vörð um norræn gildi og styrkja stöðu réttarríkisins, lýðræðis og mannréttinda sem víða eiga undir högg að sækja.

Guðlaugur Þór átti einnig tvíhliða fund með Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, þar sem þeir ræddu m.a. norðurslóðamál og öryggismál. Þá funduðu Guðlaugur Þór og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, þar sem m.a. var rætt um náið samstarf ríkjanna og áherslur Norðurlandanna á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem ríkin eiga bæði sæti um þessar mundir. Þá ræddu þeir norræna samvinnu og málefni norðurslóða.

Við þetta tækifæri undirrituðu Guðlaugur Þór og Jeppe Kofod tvíhliða samning milli Íslands og Danmerkur um fyrirsvar í áritunarmálum. Danmörk er eitt níu ríkja sem afgreiða umsóknir um Schengen-vegabréfsáritanir til Íslands á svæðum þar sem Ísland er ekki með sendiskrifstofu. Ríkisborgarar fleiri en hundrað ríkja þurfa að sækja um Schengen-vegabréfsáritun til þess að komast til Íslands. Danir hafa hingað til afgreitt um tvo þriðju þeirra umsókna sem öll fyrirsvarsríkin afgreiða fyrir Ísland.

Fyrirsvarssamningurinn endurspeglar breyttan veruleika íslenskrar ferðaþjónustu og tryggir áframhaldandi gott samstarf ríkjanna í Schengen-áritanamálum. Fjöldi ferðamanna hefur margfaldast frá því Ísland gerðist aðili að Schengen-samningnum árið 2001 og er undirritun samningsins liður í því ferli að Ísland annist sjálft afgreiðslu umsókna á þeim svæðum þar sem álagið hefur verið mest á fyrirsvarsríkin, svo sem í Kína og á Indlandi. Í þeim tilgangi hefur verið komið á fót miðlægri áritanadeild í utanríkisráðuneytinu til þess að sinna afgreiðslu umsókna með rafrænum hætti.

Með þessum aðgerðum styðja stjórnvöld enn betur við íslenska ferðaþjónustu og sókn hennar á ný markaðssvæði. Þá fela þær einnig í sér bætta þjónustu við erlenda ferðamenn sem vilja sækja landið heim og við íslensk fyrirtæki sem vilja bjóða erlendum viðskiptaaðilum til Íslands.

Á morgun fer fram fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna sem lýkur með blaðamannafundi á Hótel Hamri í Borgarnesi um hádegisbil.


  • Utanríkisráðherra Noregs, Ine Eriksen Søreide, á fundi norrænu utanríkisráðherranna. Mynd: Iris Dager.
  • Utanríkisráðherrar Íslands og Danmerkur undirrituðu samning um fyrirsvar í áritunarmálum. Mynd: Iris Dager.
  • Utanríkisráðherrar Íslands og Finnlands, Pekka Haavisto, áttu tvíhliða fund í dag. Mynd: Iris Dager.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira