Hoppa yfir valmynd
12. september 2019 Félagsmálaráðuneytið

Breytingar í þágu barna – ráðstefna í Hörpu

Ráðstefnan fer fram í Norðurljósasal Hörpu. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags og barnamálaráðherra, boðar til ráðstefnu undir yfirskriftinni Breytingar í þágu barna þann 2. október næstkomandi. Ráðstefnan, sem haldin er í samvinnu við Landssamband ungmennafélaga, fer fram í Norðurljósasal Hörpu. Hún hefst klukkan 8:30 og stendur til klukkan 15:00. Skráning er hafin.

Velferðarráðuneytið boðaði til ráðstefnu um snemmtæka íhlutun í málefnum barna á Íslandi í maí 2018. Þangað mættu 350 manns. Markmiðið var að fá fram samtal um það hvernig samfélagið gæti gripið fyrr inn í þegar kemur að börnum og ungmennum sem þarfnast aðstoðar. Þátttakendur ráðstefnunnar voru sammála um að gera þyrfti kerfisbreytingar í þágu barna.

Í framhaldinu skrifuðu félags- og barnamálaráðherra, dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra auk sambands íslenskra sveitarfélaga undir viljayfirlýsingu um að auka ætti samstarf á milli málefnasviða sem snúa að börnum og í kjölfarið var skipaður sérstakur stýrihópur stjórnarráðsins í málefnum barna. Samhliða því skipaði félags- og barnamálaráðherra nefnd þingmanna með fulltrúum allra þingflokka sem falið var, í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og stýrihóp stjórnarráðsins í málefnum barna, að móta tillögur að breyttri skipan velferðarmála til að ná betur utan um börn og ungmenni.

Óskað var víðtæks samráðs í þessari vinnu og mikið lagt upp úr því að fá sem flesta að borðinu. Frá upphafi var skýrt að öllum sem vildu væri velkomið að taka þátt. Fjölmargir sérfræðingar, fulltrúar félagasamtaka og notendur kerfisins svöruðu kallinu og lögðu sitt af mörkum. Þátttakendum var skipt niður í átta hliðarhópa sem fjölluðu um:

  • samtal þjónustukerfa
  • barnaverndarlög
  • forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir
  • skipulag og skilvirkni úrræða
  • tækni og jöfnun þjónustu um allt land
  • gagnagrunnur og upplýsingamál
  • börn í sérstaklega viðkvæmri stöðu
  • velferð og virkni ungs fólks 18-24 ára

Á stórum vinnufundi síðastliðið vor greindu fulltrúar hliðarhópanna frá störfum sínum og fyrstu tillögum. Frá þeim tíma hefur farið fram vinna innan félagsmálaráðuneytis við að forma þær niðurstöður í útlínur að nýju heildstæðu kerfi. Þar hefur þverpólitíska þingmannanefndin auk stýrihóps stjórnarráðsins í málefnum barna gegnt lykilhlutverki.

Þessi heildarendurskoðun á þjónustu við börn hófst á stórri ráðstefnu í samtali og með þátttöku lykilaðila. Það er því ánægjulegt að bjóða að nýju til ráðstefnu 2. október þar sem fyrstu tillögur að nýju velferðarkerfi fyrir börn og fjölskyldur verða kynntar og einstaka þættir þeirra ræddir frekar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira