Hoppa yfir valmynd
16. september 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Degi íslenskrar náttúru fagnað í grunnskólum

Fjölmargir grunnskólanemendur víðs vegar um landið taka þátt í sameiginlegu verkefni í tilefni dags íslenskrar náttúru sem haldinn er hátíðlegur í dag. Verkefnið „Náttúran í nærumhverfinu“ var sent öllum grunnskólum landsins með hvatningu til skólanna um að leysa það í tilefni dagsins en að verkefninu standa mennta- og menningarmálaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samstarfi við Landvernd og Reykjavíkurborg.

Verkefnin miða að því að skoða og upplifa náttúruna í næsta nágrenni skólans sem er bæði fjölbreytt og áhugaverð. Oft þarf aðeins að stíga örfá skref út úr skólanum til að kynnast lifandi náttúru, enda má jafnvel finna alls kyns búsvæði lífvera inni á skólalóðinni eða rétt utan við hana.

Mikil vakning hefur orðið í umhverfismálum innan skólasamfélagsins undanfarin ár og raddir ungs fólks orðið meira áberandi í umræðum um umhverfis- og loftslagsmál. Sem dæmi um slíkt er ályktun ungmennaþings sem fram fór á Alþingi þann 17. júní sl. og ályktun ungmennaráðs heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna frá í vor.

Sjálfbærni er einn grunnþáttur í aðalnámsskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla. Með slíkri áherslu er stefnt að samábyrgu samfélagi þar sem allar ákvarðanir og gjörðir taka mið af umhverfi, efnahag og félagslegri sanngirni. Umhverfismennt og fræðsla um náttúruna tengist skólastarfi með fjölbreyttum hætti og hafa fjölmörg spennandi þróunar- og nýsköpunarverkefni á því sviði verið útfærð í grunnskólum landsins síðustu ár.

Þá taka alls 230 íslenskir skólar á öllum skólastigum þátt í alþjóðlega umhverfismenntaverkefninu Skólar á grænni grein (e. Eco-Schools) eða Grænfánaverkefninu. Landvernd hefur umsjón með verkefninu hér á landi en það miðar m.a. að því að efla sjálfbærnimenntun, umhverfisvitund og samfélagskennd, og veita nemendum menntun og færni til þess að fást við umhverfismál og styðja við umhverfisstefnur sinna skóla.

Meðal þeirra sem spreyttu sig á skólaverkefni dagsins var Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra sem tók þátt í kennslustund í Ártúnsskóla í morgun.

  • Degi íslenskrar náttúru fagnað í grunnskólum - mynd úr myndasafni númer 1
  • Degi íslenskrar náttúru fagnað í grunnskólum - mynd úr myndasafni númer 2
  • Degi íslenskrar náttúru fagnað í grunnskólum - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum