Hoppa yfir valmynd
16. september 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Ný skýrsla OECD: Lífskjör á Íslandi með því besta sem þekkist

Lilja Alfreðsdóttir, Bjarni Benediktsson og Angel Gurría á kynningu skýrslunnar. - myndGolli

Íslenskt efnahagsumhverfi er heilbrigt, jöfnuður óvíða meiri og staða ríkissjóðs traust. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um Ísland, sem birt var í dag. Skýrslur af þessu tagi eru gefnar út á tveggja ára fresti. Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar á blaðamannafundi ásamt Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra og Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Að þessu sinni var auk venjubundinnar umfjöllunar um íslensk efnahagsmál sérstaklega fjallað um útgjöld ríkissjóðs og menntamál.

Staða hagkerfisins góð

Í skýrslu OECD kemur fram að lífskjör á Íslandi séu með því besta sem þekkist meðal aðildarríkja OECD. Það byggist á miklum hagvexti undanfarin ár með litlu atvinnuleysi, lágri verðbólgu og jákvæðum ytri skilyrðum. Á sama tíma hafi umgjörð hins opinbera verið styrkt og fjármálastjórnin einkennst af varfærni og lækkun skulda. Staða hins opinbera sé því sterk og sjálfbær.

OECD er bjartsýnna á þróun hagvaxtar á þessu ári en innlendir aðilar. Stofnunin spáir 0,2% hagvexti á þessu ári og 2,2% á því næsta.

Helstu tilmæli OECD lúta að umbótum í menntamálum og ríkisrekstri:

Opinber rekstur

 • Virða á umgjörð opinberra fjármála og skuldareglu í lögum um opinber fjármál og lækka skuldir frekar.
 • Hvatt er til að haldið verði áfram með áætlanir um sölu banka. Tryggja ber aðskilnað reksturs og eftirlits í fjármálakerfinu.
 • Auka þarf áherslu á endurmat útgjalda og útvíkka það til stærstu útgjaldasviða ríkisins, ekki síst mennta- og heilbrigðiskerfis, í samræmi við reynslu annarra þjóða. Styrkja stöðu fjármálaráðs t.d. með því að sameina það Ríkisendurskoðun.
 • Forgangsraða í innviðauppbyggingu með arðsemi að leiðarljósi. Auka ætti fjárfestingu í vegum, flutningskerfi rafmagns og gagna. Taka ætti upp veggjöld til að stýra eftirspurn og til reksturs á vegakerfinu.
 • Leggja þarf aukna áherslu á að styðja við atvinnuþátttöku og auka hvata til hennar m.a. með því að draga úr áherslu á bótagreiðslur.
 • Efla ætti heilsugæsluna og auka hliðvörslu að sérfræðilæknum. Auka ætti greiðsluþátttöku í sjúkrahúskostnaði en draga úr henni annars staðar í heilbrigðiskerfinu.
 • Hvetja þarf til sameininga sveitarfélaga með fjárhagslegum hvötum. Styrkja ætti stjórnsýsluna á höfuðborgarsvæðinu með auknu samstarfi og mögulega koma á svæðisstjórn.

Framleiðni og samkeppnishæfni

 • Einfalda ætti rekstrarumhverfi fyrirtækja, sérstaklega í þjónustu- og flutningsgreinum. Draga þarf úr hindrunum fyrir beinni erlendri fjárfestingu.
 • Launaákvarðanir ættu að fylgja framleiðnivexti og treysta þarf umgjörð kjarasamninga.
 • Stuðla að hreyfanleika vinnuafls yfir í framleiðnari greinar með aukinni menntun. Bent er á að vissulega stuðli lítill launamunur að jöfnuði en dragi úr hvata til menntunar og þar með aukinnar verðmætasköpunar.

Grænn hagvöxtur

 • Hækka ætti kolefnisskatta og breikka skattstofninn með því að skattleggja losun iðnaðar og landbúnaðar.
 • Tengja ætti styrki í landbúnaði við sjálfbæra landnotkun og umhverfisvæna framleiðslu fremur en magn

Menntun og hæfni

 • Bæta gæði kennslu, m.a. með aukinni starfsþjálfun kennara og einstaklingsmiðari endurmenntun þeirra.
 • Lagt er til að tengja launasetningu kennara erfiðleikastigi milli skólastiga í auknum mæli og árangurstengja kennsluna í ríkari mæli.
 • Fjármögnun háskólastigsins ætti að þróa í auknum mæli í takt við árangur nemenda og þarfir vinnumarkaðarins.
 • Auka möguleika á einkafjármögnun, m.a. erlendri, á háskólastiginu sérstaklega á svið rannsókna og þróunar.
 • Efla íslenskukennslu fyrir börn innflytjenda.
 • Þróa líkön til að meta menntunarþörf byggða á nokkrum mismunandi þáttum.
 • Auka verkkunnáttu með meiri samþættingu verk- og bóknáms. Beina fjármagni að hluta til háskólagreina sem skila þekkingu sem vinnumarkaðurinn kallar eftir.
 • Bæta læsi m.a. með því að hafa lestur lengur sem kjarnafag í grunnskóla.
 • Auka þarf mat á árangri í grunnskólakennslu með því að þróa matskerfi.
 • Einfalda umgjörð verknáms og samræma það. Tryggja öllum nemum í verknámi aðgang að verklegu námi og verknámstíma við hæfi.
 • Tryggja aukið samstarf hins opinbera og háskólastofnana. Auka samstarf háskóla við atvinnulífið með því að beina fjármagni í samstarfsverkefni.
 • Hvetja til endurmenntunar, ekki síst þeirra sem ekki eru langskólagengnir.
 • Bæta gagnasöfnun um hæfni og menntun einstaklinga, sem og gagnavinnslu.
 • Halda betur utan um þá þekkingu sem er til staðar og stuðla að því að geta nýtt hana á árangursríkari hátt, ekki síst þekkingu innflytjenda. Bæta íslenskukennslu og bæta og auka mat á erlendum réttindum og hæfni.
 • Herða ætti örorkumatsskilyrðin og auka stuðning við áframhaldandi atvinnuþátttöku.

Efni frá OECD

 

 • Angel Gurría framkvæmdastjóri OECD kynnti skýrsluna.
 • Bjarni Benediktsson og Angel Gurría á kynningarfundinum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira