Hoppa yfir valmynd
25. september 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Kristján Þór undirritar reglugerð um viðbótartryggingar

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð sem kveður á um viðbótartryggingar varðandi salmonellu vegna innflutnings á kjúklingakjöti, hænueggjum og kalkúnakjöti.

 

Þetta þýðir að þessum matvælunum skal alltaf fylgja vottorð sem byggja á salmonellu rannsóknum og sýna að hún hafi ekki greinst. Í því felst að framleiðandi eða sendandi vörunnar taki sýni úr öllum sendingum á kjúklinga,- og kalkúnakjöti, sem og úr eggjum. Ef varan er laus við salmonellu er gefið út vottorð þess efnis. Án slíks vottorðs verður innflutningur ekki heimilaður. Reglugerðin tekur gildi 1. janúar nk.

 

Heimild ESA í janúar

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimilaði íslenskum stjórnvöldum hinn 16. janúar sl. að setja umræddar viðbótartryggingar að undangenginni umsókn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hinn 4. júlí 2018.

 

Drög að reglugerðinni voru birt á Samráðsgátt stjórnvalda á tímabilinu 4.-18. september sl. en engar athugasemdir bárust.

 

Hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda

Viðbótartryggingarnar eru unnar í samræmi við aðgerðaáætlun í 17 liðum um að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Áætlunin var lögð fram af Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og var hún samþykkt sem þingsályktun hinn 19. júní sl. Unnið hefur verið að mótun og framgangi þeirra aðgerða í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu frá því í desember 2017 og er sú vinna í forgangi í ráðuneytinu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum