Hoppa yfir valmynd
3. október 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Skýrsla starfshóps um hjálpartæki afhent heilbrigðisráðherra

Skýrsla starfshóps um hjálpartæki afhent heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Hópur sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skipaði til að skoða fyrirkomulag varðandi hjálpartæki hér á landi og koma með tillögur til úrbóta, skilaði henni skýrslu með niðurstöðum sínum í dag. Tillögur hópsins eru í sex liðum og snúa meðal annars að greiðsluþátttöku, afgreiðslu og úthlutun hjálpartækja, mati á þörf fólks fyrir hjálpartæki, innleiðingu nýjunga og upplýsingamiðlun til notenda hjálpartækja.

Mikilvægur liður í vinnu hópsins var að skoða þessi mál í ljósi samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fullgiltur var hér á landi árið 2016. Meðal skuldbindinga sem þau ríki sem aðild eiga að samningnum undirgangast er að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að hjálpartækjum og annarri stuðningstækni, t.d. upplýsinga- og samskiptatækni, sem auðveldar fólki að vera samfélagslega virkt.

Steinunn Þóra ÁrnadóttirÁ skilafundi starfshópsins með ráðherra gerði Steinunn Þóra Árnadóttir sem leiddi verkefnið grein fyrir vinnu hópsins og meginniðurstöðum. Ein tillagnanna felur m.a. í sér að reglugerðir sem lúta að hjálpartækjum og skilgreiningu á hugtakinu hjálpartæki verði endurskoðaðar í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og bent er á fleiri reglugerðir sem þarfnast endurskoðunar og samræmingar: Steinunn Þóra segir þessa endurskoðun mikilvæga þar sem í reglugerðunum endurspeglist skilningur á stöðu þeirra sem þurfa á hjálpartækjum að halda.

Í umræðum á fundinum bentu nefndarmenn á hve miklu skipti að fólk fái úthlutað hjálpartækjum í samræmi við raunverulegar þarfir og út frá því markmiði að gera notendum kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu á öllum sviðum.

Tillögur starfshópsins eru teknar saman í stuttu máli fremst í meðfylgjandi skýrslu en fjallað ýtarlega um þær í sérstökum kafla. Í skýrslunni er fjallað um gildandi lög og reglugerðir sem hafa með hjálpartæki að gera, um stofnanaumhverfi málaflokksins, um skipulag við úthlutun hjálpartækja, um greiðsluþátttöku hins opinbera og fleira. Meðal þess sem lagt er til er að einfalda skipulag við afgreiðslu og úthlutun hjálpartækja, að endurskoða greiðsluþátttöku og draga úr kostnaði notenda, að endurskoða þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar við mat á þörf fólks fyrir hjálpartæki og að bæta upplýsingamiðlun um hjálpartæki og viðgerðarþjónustu. Hópurinn bendir einnig á að finna þurfi farveg fyrir reglubundið mat á hjálpartækjum og innleiðingu nýjunga, enda séu hjálpartæki í sífelldri þróun sem mikilvægt sé að fylgjast með svo taka megi gagnlegar nýjungar í notkun.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þakkaði formanni og öðrum fulltrúum starfshópsins fyrir þá vinnu sem þau hafa lagt af mörkum og liggur að baki skýrslunni og þeim tillögum sem þar eru settar fram. Tillögurnar verða nú rýndar í ráðuneytinu og tekin afstaða til þess hver verði næstu skref.

Skýrsla starfshópsins verður kynnt á málþingi sem Örykjabandalag Íslands stendur fyrir 9. október næstkomandi á Grand Hótel Reykjavík.

  • Steinunn Þóra Árnadóttir - mynd
  • Skýrsla starfshóps um hjálpartæki afhent heilbrigðisráðherra - mynd úr myndasafni númer 2
  • Skýrsla starfshóps um hjálpartæki afhent heilbrigðisráðherra - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum