Hoppa yfir valmynd
4. október 2019 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Nýsköpunarstefna fyrir Ísland: Nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsyn

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra og Guðmundur Hafsteinsson, formaður stýrihóps - myndEggert Ólafsson

Nýsköpunarlandið Ísland er samfélag þar sem hugarfar, fjármagn, markaðsaðgengi, umgjörð og mannauður styðja við nýsköpun sem grundvöll menningarlegra og efnahagslegra lífsgæða. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra, kynnti í dag nýja Nýsköpunarstefnu fyrir Ísland í Sjávarklasanum.

Stefnunni er ætlað að gera Ísland betur í stakk búið til að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum.

„Nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsyn,“ segir Þórdís Kolbrún.

Við mótun stefnunnar tóku þátt fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi, fulltrúar atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Vinnu stýrihóps leiddi Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar á Google Assistant.

Nýsköpunarstefna fyrir Ísland markar sýn til ársins 2030. Í henni er sett fram það markmið að árið 2030 sé Ísland fjölbreytt samfélag velferðar, öryggis og jafnra tækifæra. Ísland verði í fremstu röð þegar borin eru saman lífsgæði og hamingja í löndum heims. Samfélag þar sem nýsköpun er inngróin í menningu og efnahagslíf og kjörlendi til að setja á fót og starfrækja alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki. Samfélag þar sem virðing er borin fyrir frumkvöðlum og skapandi einstaklingum í efnahagslífi og menningu og er fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar sjálfbæra þróun.

Það skiptir máli að hafa teiknað upp þá grunnsýn til næstu ára sem er lögð fram í nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, því að hún verður undirliggjandi hugmyndafræði þeirra aðgerða sem munu fylgja í kjölfarið. Við höfum alla burði til að vera virkir og fullgildir þátttakendur í hröðum og síbreytilegum heimi nýsköpunar og tæknibreytinga. Það er áskorun sem við þurfum að takast á við til að tryggja framúrskarandi lífskjör og velsæld á Íslandi á komandi áratugum. Sú stefna sem hér er lögð fram gerir okkur að mínu mati betur í stakk búin til þess en nokkru sinni fyrr,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra.

Þau leiðu mistök urðu að nafn Jóns Steindórs Valdimarssonar, fulltrúa Viðreisnar í stýrihópnum, vantaði á lista yfir meðlimi stýrihópsins. Stefnuskjalið hefur verið uppfært og er Jón Steindór beðinn afsökunar á þessu. 

  • Guðmundur Hafsteinsson, formaður stýrihóps - mynd
  • Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum