Hoppa yfir valmynd
8. október 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framtíðarsýn um starfsþróun kennara

Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda skilaði á dögunum tillögum til Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um framtíðarsýn fyrir starfsþróun kennara hér á landi. Tillögur þessar eru nýmæli þar sem ekki hefur legið fyrir sameiginleg framtíðarsýn á málefni starfsþróunar t.d. milli ólíkra skólastiga og rekstraraðila skóla.

Starfsþróun getur m.a. falið í sér formlegt nám og endurmenntun kennara, námskeið, rannsóknir á eigin starfi, þátttöku í þróunarverkefnum, ráðgjöf, ráðstefnur og heimsóknir í aðra skóla. Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að aukinni starfsánægju kennara og hefur jákvæð áhrif á árangur þeirra í starfi.

„Ég er virkilega ánægð með þessa góðu samvinnu og fagna tillögum ráðsins. Við vitum að öflug menntakerfi á alþjóðavísu hafa keppt að því að gera starfsumhverfi sinna kennara framúrskarandi, liður í því er öflug framtíðarsýn fyrir starfsþróun stéttarinnar. Þessi vinna markar tímamót í því að efla starfsþróun íslenskra kennara og viðurkenna mikilvægi hennar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Fulltrúar Kennarasambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, kennaramenntunarstofnana og mennta- og menningarmálaráðuneytis áttu sæti í ráðinu. Meðal helstu tillagna í skýrslu ráðsins eru:

  • Endurskoðun fjármögnunar: Fjármögnun starfsþróunar kennara og skólastjórnenda verði endurskoðuð með það að markmiði að jafna aðgengi allra kennara og skóla að fjármagni og starfsþróunartækifærum.
  • Ákvæði um starfsþróun í lög: Sett verði í lög ákvæði um starfsþróun kennara og skólastjórnenda leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarskóla, með áherslu á að starfsþróun sé hluti af starfi þeirra. Ávallt verði hugað að starfsþróun í tengslum við innleiðingu stefnu í menntamálum og breytingar á henni.
  • Áherslur samræmdar skólastefnu: Sveitarfélög, mennta- og menningarmálaráðuneyti og aðrir rekstraraðilar skóla leggi áherslu á að stefna þeirra um starfsþróun verði hluti af skólastefnu hvers leik-, grunn- framhalds- og tónlistarskóla.
  • Menntamálastofnun: Boðið verði upp á tækifæri til starfsþróunar í tengslum við verkefni Menntamálastofnunar og kannanir á hennar vegum. Stofnunin útfæri möguleika til starfsþróunar í samstarfi við háskóla, sveitarfélög og aðra aðila eftir því sem við á.
  • Háskólastigið: Samstarf og ráðgjöf um starfsþróun kennara og skólastjórnenda verði skilgreind sem hluti af starfskyldum háskólakennara sem mennta kennara og skólastjórnendur.
  • Ráðgjöf og stuðningur: Tryggt verði að skólar hafi greiðan aðgang að ráðgjöf og stuðningi til starfsþróunar fyrir kennara og skólastjórnendur. Við skipulag og útfærslu verði stutt við faglegt samstarf og sérstaklega hugað að tengslum við aðrar menntastofnanir.

Hlutfall kennara hér á landi sem tekið hefur þátt í starfsþróunarverkefnum er nokkuð hátt í alþjóðlegum samanburði. Það sýna t.a.m. niðurstöður TALIS-menntarannsóknarinnar sem birt var í haust en þátttakendur í henni eru kennarar á unglingastigi. Á Norðurlöndunum og í ríkjum OECD er meira um að þeir kennarar þjálfi eða fylgist með kennslu samkennara eða greini eigin kennslu, heldur en hér á landi. Algengast er að starfsþróunarverkefni tengist námsmatsaðferðum, þekkingu á námskrá, eða þekkingu og skilning á aðalkennslugrein. Samkvæmt TALIS meta íslenskir kennarar mesta þörf nú vera á starfsþróun í kennslu í fjölmenningarumhverfi og/eða fjöltyngdum nemendahópum og um hegðun nemenda og stjórnun í kennslustofum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum