Hoppa yfir valmynd
9. október 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aukin þjónusta við börn – nýtt MST teymi og biðlistum útrýmt

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, heimsótti á dögunum starfsstöð MST meðferðarúrræðisins sem er ætlað fjölskyldum og börnum sem glíma við alvarlegan hegðunar- og vímuefnavanda. Hann fundaði með starfsfólki og ræddi meðal annars um nýtt MST meðferðarteymi sem formlega hefur tekið til starfa til að mæta aukinni eftirspurn eftir þjónustunni.

Engir biðlistar

Eftirspurn eftir MST þjónustu hefur aukist mikið og allt frá upphafi árs 2018 hefur verið nokkur bið eftir meðferð. Þegar mest lét voru um þrjátíu börn á biðlista og biðin um þrír til fjórir mánuðir. Í ljósi eðlis þjónustunnar er það mjög óæskilegt enda er það eitt af meginmarkmiðum hennar að hægt sé að bregðast hratt við beiðni um viðeigandi þjónustu við börn og fjölskyldur á heimilum þeirra og í nærumhverfi áður en vandinn eykst. Tekist hefur að ná fyrrnefndum biðlista niður og í dag er engin bið eftir MST meðferð.

Í framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar sem félags- og barnamálaráðherra lagði fyrir Alþingi síðastliðið vor var ákveðið að festa í sessi þjónustu MST á landsvísu og tryggja fjármuni til að hægt sé að veita þá þjónustu um land allt. Í samræmi við þær áætlanir hefur nú verið bætt við nýju MST meðferðarteymi. Markmið þessara aðgerða er að tryggja að ekki myndist biðlistar á ný.

"Það er virkilega ánægjulegt að sjá að metnaðarfullar áætlanir okkar til að auka þjónustu við börn og ungmenni séu farnar að skila sér. En betur má ef duga skal.  Aukið framboð úrræða, sem miða að því að efla bjargráð foreldra og barna í nærumhverfi, hefur gefið góða raun. Ég bind miklar vonir við að þetta jákvæða skref sé aðeins með þeim fyrstu í að byggja upp breytta og eflda þjónustu fyrir börn og ungmenni," segir Ásmundur Einar.  

Hvað er MST meðferð?

MST er fjölkerfameðferð (e. Multisystemic Therapy) sem veitt er á vegum Barnaverndarstofu og er ætluð fjölskyldum og börnum sem glíma við alvarlegan hegðunar- og vímuefnavanda.  Meðferðin fer fram á heimili fjölskyldunnar og snýr að öllu nærumhverfi barnsins: foreldrum, fjölskyldu, félagahópi, skóla og tómstundum. Reynt er að bæta samheldni innan fjölskyldunnar, tengsl og samráð foreldra og skóla og annarra lykilaðila í umhverfi barnsins. Meðferðin felst í að draga úr eða yfirvinna vandamál barns miðað við skilgreind meðferðarmarkmið og almennt að efla hæfni foreldra til að takast á við aðsteðjandi vandamál. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum