Hoppa yfir valmynd
10. október 2019 Innviðaráðuneytið

Byggingarmálaráðherrar vilja sjá ódýrara húsnæði og aðgerðir í þágu loftslagsins

Í tengslum við fundinn fóru fram hringborðsumræður með ráðherrum og forstjórum úr byggingariðnaðinum á Norðurlöndum þar sem fjallað var um aukið samstarf þvert á landamæri. - myndFélagsmálaráðuneytið. Mynd: BIG

Í yfirlýsingu sem byggingar- og húsnæðismálaráðherrar Norðurlandanna hafa komið sér saman um kemur fram að draga þurfi úr losun koltvísýrings frá húsnæði og byggingariðnaði á Norðurlöndum. Eins að greinin ætti að leggja aukna áherslu á hringrásarhagkerfi. Ráðherrarnir vilja sömuleiðis sjá aukið norrænt samstarf til að efla samkeppni og lækka húsnæðiskostnað. Þeir funduðu á Hótel Sögu í dag.

Meira en þriðjungur af losun norrænu landanna á koltvísýringi kemur frá húsnæði og byggingariðnaði. Því vilja hinir norrænu ráðherrar húsnæðis- og byggingarmála bregðast við. Þeir hafa því komið sér saman um yfirlýsingu þar sem áhersla er lögð á þörfina fyrir aukið samstarf í því skyni að draga úr losun frá húsnæði og byggingariðnaði.

Samkvæmt yfirlýsingunni skuldbinda ráðherrarnir sig til að leitast við að vera í fararbroddi á heimsvísu svo Norðurlönd geti orðið það svæði sem mest sækir fram í því að þróa lausnir sem draga úr losun í byggingariðnaði.

„Markmiðinu um að gera Norðurlönd að kolefnishlutlausu svæði, sem norrænu forsætisráðherrarnir samþykktu á fundi sínum í ágúst, verður ekki náð nema húsnæðis- og byggingariðnaðurinn bregðist hratt við. Það er löngu tímabært að byggingariðnaðurinn hætti að vera hluti af loftslagsvandanum og verði hluti af lausninni,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sem stýrði fundinum.

Í yfirlýsingunni hvetja ráðherrarnir aðila innan byggingariðnaðarins og fasteignageirans til að taka höndum saman um norræna samstöðu um byggingarframkvæmdir með lága koltvísýringslosun. Einnig kalla ráðherrarnir eftir auknu samstarfi innan fræðasamfélagsins og milli rannsóknarstofnana til að afla aukinnar þekkingar sem stuðlað geti að hröðum breytingum.

Í yfirlýsingunni er áhersla lögð á mikilvægi hringrásarhagkerfis innan byggingariðnaðarins. Meðal annars er bent á að byggingar sem þegar hafa verið reistar hafi að geyma mikið af nothæfu byggingarefni sem beri að nýta. Enn fremur er kallað eftir lagasetningu á evrópskum vettvangi sem ýti undir aukna endurnýtingu byggingarefnis.

Hringborðsumræða með forstjórum úr byggingariðnaði

Í tengslum við fund ráðherranna í dag fóru fram hringborðsumræður með ráðherrunum og forstjórum úr byggingariðnaðinum á Norðurlöndum. Tilgangurinn var meðal annars að finna raunhæfar leiðir til að hægt sé að byggja ódýrara húsnæði en það er áskorun sem öll norrænu löndin standa frammi fyrir.

Ein slík lausn er að gera fyrirtækjum í norrænu löndunum kleift að bjóða í framkvæmdir í öðru norrænu landi með einföldum hætti og án aukins kostnaðar. Það má til dæmis gera með því að þróa stafræna þjónustu þvert á landamæri.

„Aukið samstarf þvert á landamæri stækkar markaðinn og leiðir því til aukinnar samkeppni og ódýrara húsnæðis. Við verðum að skilgreina stærstu hindranirnar í vegi norræns samstarfs og bregðast við þeim. Þannig fáum við ódýrara húsnæði sem fólk hefur efni á, einnig ungt fólk og jaðarsettir hópar,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Á fundinum ræddu ráðherrarnir hvernig löndin geti unnið meira saman til að greiða fyrir byggingu húsnæðis í dreifbýli og hvað hægt sé að gera til að auðvelda aðgengi ungs fólks og jaðarsettra hópa að húsnæði.

  • Byggingarmálaráðherrar vilja sjá ódýrara húsnæði og aðgerðir í þágu loftslagsins - mynd úr myndasafni númer 1
  • Byggingarmálaráðherrar vilja sjá ódýrara húsnæði og aðgerðir í þágu loftslagsins - mynd úr myndasafni númer 2
  • Byggingarmálaráðherrar vilja sjá ódýrara húsnæði og aðgerðir í þágu loftslagsins - mynd úr myndasafni númer 3
  • Byggingarmálaráðherrar vilja sjá ódýrara húsnæði og aðgerðir í þágu loftslagsins - mynd úr myndasafni númer 4
  • Byggingarmálaráðherrar vilja sjá ódýrara húsnæði og aðgerðir í þágu loftslagsins - mynd úr myndasafni númer 5

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira