Hoppa yfir valmynd
29. október 2019 Innviðaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Lokafundur samstarfsráðherra á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, á fundi samstarfsráðherra í Norrænu ráðherranefndinni í Stokkhólmi í dag. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, stýrði í morgun fimmta og síðasta fundi samstarfsráðherra á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. 

Framtíðarsýn norræns samstarfs – um Norðurlöndin sem sjálfbærasta og samþættasta svæði heims – var meginumræðuefnið á fundi samstarfsráðherranna sem fór fram í Stokkhólmi. 

Rætt var um hvernig norrænt samstarf ætti í stórauknum mæli að snúast um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og hvernig tryggja megi að samfélög og efnahagslíf á Norðurlöndunum séu sem sjálfbærust. 

Markmiðið er að vinna saman á þeim sviðum þar sem Norðurlöndin eru sterkari saman, þannig að norrænt samstarf verði raunveruleg viðbót við aðgerðir einstakra landa s.s. varðandi kolefnishlutleysi, með því að styðja við vöxt hringrásarhagkerfisins og efla grænan hagvöxt sem tryggir samkeppnishæfni til framtíðar. Gert er ráð fyrir að samnorræn verkefni sem styðji við græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd liggi fyrir á næsta ári. 

Á síðustu fimm árum hefur á sjötta tug hindrana milli Norðurlandanna verði rutt úr vegi, sem gerir Norðurlöndin að einu samþættasta svæði heims og gerir þannig íbúum Norðurlandanna auðveldara með vinna, stunda nám og stofna fyrirtæki í hinum löndunum. Siv Friðleifsdóttir, formaður norræna Stjórnsýsluhindranaráðsins, gaf ráðherrunum skýrslu um starf ráðsins en að draga úr stjórnsýsluhindrunum er ekki síst mikilvægt fyrir Ísland, þar sem hlutfallslega flestir Íslendingar búa í öðru Norrænu landi, eða 7-8%.

Vestnorræn málefni voru einnig til umfjöllunar en eitt af markmiðum formennsku Íslands hefur verið að auka norrænt samstarf á Norður-Atlantshafssvæðinu þ.m.t. við Færeyjar og Grænland. Samþykkt var að styrkja framkvæmd NAUST sem er ný stefnumótun um málefni svæðisins. 

Að fundi loknum hittu norrænir samstarfsráðherrar forsætisnefnd Norðurlandaráðs, en Norðurlandaráðsþing verður sett í dag. Á morgun mun samstarfsráðherra meðal annars gefa þinginu skýrslu um starf Norrænu ráðherranefndarinnar í formennsku Íslands og hitta forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins. 

  • Fundur samstarfsráðherra í Norrænu ráðherranefndinni í Stokkhólmi í dag. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum