Hoppa yfir valmynd
31. október 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skýrslur um örplast og lyfjaleifar í íslensku umhverfi kynntar

Málþingið var vel sótt.  - mynd

Tvær skýrslur sem unnar voru fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið voru kynntar á málþingi sem fram fór í dag. Annars vegar er um að ræða samantekt Sjávarlíftæknisetursins Biopol um helstu uppsprettur örplasts á Íslandi og farvegi þess til sjávar og hins vegar samantekt Matís um lyfjaleifar í íslensku umhverfi, losun út í umhverfið og væntanlegt magn og áhættu.

Örplast berst til sjávar með ofanvatni

Plastrusl finnst hvarvetna í hafinu af öllum stærðum og gerðum, allt niður í örplastagnir sem myndast ýmist við niðurbrot plasts í sjónum eða berast þangað frá landi. Í skýrslu BioPol um örplast voru greindar uppsprettur örplasts á Íslandi, lagt mat á stærð þeirra og eftir hvaða leiðum örplastið berst til sjávar. 

Hjólbarðar innihalda plast sem verður að örplasti við slit og samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar eru hjólbarðar langstærsta uppspretta örplasts hér landi eða um 75%. Áætlað er að frá þeim berist árlega 160-230 tonn til sjávar. Í nágrannalöndum okkar eru hjólbarðar einnig langstærsta einstaka uppspretta örplasts. Plastagnir úr vegmerkingum koma næst hér á landi, 6-43 tonn, síðan plast úr húsamálningu, 15-36 tonn, þá plastagnir frá þvotti, 8-32 tonn og plast úr skipamálningu, 3-10 tonn.

Aðrar uppsprettur eru mun smærri, svo sem gervigrasvellir, snyrtivörur og urðunarstaðir. Farleiðir örplasts til hafs eru ólíkar eftir uppsprettum og misflókið að meta stærð þeirra. Af skýrslunni má ráða að 90% eða meira af örplasti sem myndast á landi berist með regnvatni til sjávar. Helstu farleiðir örplasts í hafið eru því með rennandi vatni af vegum, götum og stéttum, m.a. í gegn um niðurföll og ræsi.

Örplast í hafinu við Ísland - Helstu uppsprettur, magn og farvegir í umhverfinu

Gagnvirk útgáfa skýrslunnar

Valtýr Sigurðsson kynnti skýrslu BioPol um um helstu uppsprettur örplasts á Íslandi

Fræðilegt mat lagt á lyfjaleifar

Miklar framfarir hafa orðið í þróun lyfja undanfarna áratugi og eru lyf ómissandi þáttur nútíma lækninga. Ekki kemur því á óvart að lyfjaleifar hafa víða fundist í umhverfinu, meðal annars á Íslandi. Helsta leið lyfjaleifa út í umhverfið er með skólpi, en vegna fjölbreytileika lyfjanna er töluverður munur á því að hve miklu leyti þau skolast út og umbreytast í líkamanum. 

Matís lagði mat á samtals 13 lyf fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og voru lyfin, bæði dýralyf og lyf fyrir menn, valin út frá sölutölum á Íslandi og umhverfisáhættu. Út frá þeim upplýsingum var reiknað út magn lyfjaleifa við fiskeldiskvíar, í jarðvegi og við skólpútrásir og gildin borin saman við væntanleg áhættu. Ekki var þannig um mælingar að ræða heldur fræðilegt mat. Fyrir tvö lyfjanna sem notuð eru í landbúnaði og fiskeldi var lagt mat á losun lyfjaleifa frá framleiðslueiningum þar sem losunin gæti verið hvað mest.

Niðurstaða Matís var að ekki var talin hætta fyrir umhverfið vegna þeirra tveggja dýralyfja sem metin voru, sýklalyfið prokain benzylpenicillin, sem notað er í svínabúum og sníkjudýralyfið emamectin benzoat, sem notað er í sjókvíaeldi gegn laxalús. Lagt er til að sjö lyf fyrir menn verði rannsökuð frekar með mælingum við og í nágrenni skólpútrása til að renna frekari stoðum undir matið á umhverfisáhættu af þeim. Um er að ræða lyfin ibuprofen, amoxicillin, fluoxetin, paracetamol, diclofenac, azithromycin og sertralin.

Lyfjaleifar í íslensku umhverfi

Sophie Jensen kynnti skýrslu Matís um Lyfjaleifar í íslensku umhverfi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum