Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Möguleikar hringrásarhagkerfisins kannaðir á Norðurlöndunum

Frá fundi norrænu umhverfisráðherranna í Stokkhólmi í vikunni. - mynd

Norrænir umhverfis- og loftslagsráðherrar hafa ákveðið að láta kanna þau tækifæri sem felast í hringrásarhagkerfinu og hvaða aðgerðir þarf að ráðast í til að hrinda því í framkvæmd á Norðurlöndunum. Á fundi ráðherranna í Stokkhólmi í vikunni var endurheimt landgæða enn fremur til umfjöllunar.

Ísland fer nú með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og umhverfisráðherrarnir ræddu að frumkvæði Íslands mikilvægi þess að efla hringrásarhagkerfið til að stuðla að árangri í loftslagsmálum. Rannsóknir sýna auk þess jákvæð efnahagsleg áhrif af því að efla hringrásarhagkerfið og nú vilja norrænu ráðherrarnir láta kanna þetta sameiginlega fyrir Norðurlöndin.

„Auðlindanotkun í heiminum er ekki nægilega sjálfbær. Með því að efla hringrásarhagkerfið minnkum við sóun og förum betur með auðlindirnar okkar um leið og við drögum úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samlegðaráhrifin af aðgerðunum eru því mikil,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra en hann stýrði fundinum.

Ísland hefur lagt áherslu á að horft sé til samlegðaráhrifa mismunandi aðgerða sem ráðist er í til að mæta áskorunum í umhverfismálum. Á fundi norrænu umhverfisráðherranna sem haldinn var í Reykjavík í vor voru samlegðaráhrif loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni til umfjöllunar.

Á fundi ráðherranna var einnig samþykkt að láta skoða helstu tækifæri Norðurlandanna til að samþætta endurheimt vistkerfa á Norðurslóðum við markmið um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og aukna kolefnisbindingu. Með þessu er fylgt eftir áherslum frá loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í New York í september en þar voru náttúrumiðaðar lausnir á loftslagsvandanum fyrirferðarmiklar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum