Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra leggur fram breytingar á almenna íbúðakerfinu

 Markmiðið er að gera almenna íbúðakerfið skilvirkara og að það nái til fleira fólks, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, lagði í gær fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um almennar íbúðir. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á framkvæmd þeirra frá gildistöku 15. júní 2016 til að þau nái enn betur markmiði sínu um að bæta húsnæðisöryggi og lækka húsnæðiskostnað tekju- og eignalágra leigjenda.

Frumvarpið er jafnframt liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Er það í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 3. apríl 2019 um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninga.

„Húsnæðismál eru velferðarmál og almenna íbúðakerfið hefur þegar sannað mikilvægi sitt hvað það snertir. Við ætlum á næstu árum að tryggja fjármagn til að byggja 600 nýjar íbúðir árlega innan almenna íbúðakerfisins. Samhliða því erum við hér að gera ýmsar breytingar til að almenna íbúðakerfið verði skilvirkara og nái til fleira fólks bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni," sagði Ásmundur Einar eftir að frumvarpinu var dreift á Alþingi í gær.

Í frumvarpinu er lögð til hækkun á tekju- og eignamörkum leigjenda almennra íbúða þannig að hærra hlutfall landsmanna eigi kost á almennum íbúðum. Þá er lagt til að unnt verði að veita sérstakt byggðaframlag til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum á svæðum þar sem verulegur skortur er á leiguhúsnæði og misvægi er á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs íbúðarhúsnæðis. Lagt er til grundvallar að sérstakt byggðaframlag standi einungis til boða sveitarfélögum, félögum, þar með talið húsnæðissjálfseignarstofnunum, og félagasamtökum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það sem langtímamarkmið að eiga og hafa umsjón með rekstri leiguíbúða. Ekki er gert ráð fyrir að sérstakt byggðaframlag verði greitt vegna sérstakra vandkvæða við að fá fjármögnun á almennum markaði, líkt og gildandi lög gera ráð fyrir, þar sem komið hefur verið á fót nýjum lánaflokki hjá Íbúðalánasjóði sem ætlað er að mæta slíkum vanda.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til ýmsar breytingar til að lækka fjármagnskostnað stofnframlagshafa. Þá er lagt til að við mat umsókna um stofnframlög hjá Íbúðalánasjóði verði veitt heimild til að líta til almenningssamgangna á viðkomandi svæði í því skyni að umsóknum um stofnframlög sem varða verkefni þar sem góðar almenningssamgöngur eru fyrir hendi verði veittur forgangur við afgreiðslu. Eins er lagt til að lögfest verði tímabundin forgangsregla þess efnis að Íbúðalánasjóður skuli við afgreiðslu umsókna miða við að að minnsta kosti tveir þriðju hlutar þess fjármagns sem til úthlutunar er hverju sinni renni til íbúða sem ætlaðar eru tekju- og eignalágum leigjendum á vinnumarkaði.

Lagt er til að liðkað verði fyrir veitingu stofnframlaga vegna nýbyggingarframkvæmda og eins að sveitarfélögum verði heimilað að leggja fram sem stofnframlag húsnæði eins og félagsheimili og heimavistir, enda verði ekki talið óhagkvæmt að breyta því. Þá er lagt til að kveðið verði á um að lán sem tekin eru til byggingar eða kaupa á almennri íbúð sem nema lægra hlutfalli en 30 prósentum af stofnvirði hennar skuli ekki vera til lengri tíma en 20 ára.

Enn fremur er lagt til að skýrt verði hvernig endurgreiðslum stofnframlaga skuli háttað þegar ekki hafa verið tekin lán til fjármögnunar á almennum íbúðum eða lágt hlutfall stofnvirðis þeirra hefur verið fjármagnað með lánum. Við það verði miðað í slíkum tilvikum að endurgreiðslur stofnframlaga ríkis og sveitarfélags verði samtals sem nemur 50 prósent af leigugreiðslum af almennum íbúðum, eftir að dreginn hefur verið frá kostnaður vegna reksturs. Endurgreiðslur skuli hefjast þegar íbúð fer í útleigu, hafi ekkert lán verið tekið til fjármögnunar almennrar íbúðar, eða þegar lán hafa verið greidd upp.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum