Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Áhugavert erindi landlæknis á heilbrigðisþinginu 15.nóvember

Alma D. Möller landlæknir - mynd

Dr. Alma D. Möller landlæknir verður meðal fyrirlesara á heilbrigðisþinginu 15. nóvember. Hér eru upplýsingar um bakgrunn hennar og um hvað hún mun fjalla í erindi sínu þar sem hún mun beina sjónum að því sem nefnt hefur verið sóun í heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisþingið er helgað umfjöllun um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu og verður fjallað um það efni frá ýmsum hliðum á þinginu.

Dr. Alma D. Möller landlæknir er sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum og einnig í heilbrigðisstjórnun. Hún er með meistarapróf í stjórnun og lýðheilsu auk diplóma í opinberri stjórnsýslu. Alma starfaði lengi sem yfir...læknir á Landspítala, meðal annars á gjörgæsludeild. Í því starfi þurfti hún oft að takast á við siðferðileg álitaefni. Hún hefur lengi unnið að umbóta- og gæðastarfi í heilbrigðisþjónustu en aðalþættir gæða eru að þjónustan sé örugg, rétt tímasett, árangursrík, skilvirk, notendamiðuð og að jafnræðis sé gætt.

Í erindi sínu mun Alma beina sjónum að því sem nefnt hefur verið sóun í heilbrigðisþjónustu. Birtingarmynd sóunar getur meðal annars verið óviðeigandi þjónusta sem og of- eða vannotkun þjónustu. Það getur átt við greiningarrannsóknir, lyf, skurðaðgerðir, skimanir, meðferð við lok lífs og fleira. Sóun getur einnig birst í óhagkvæmni og lítilli skilvirkni. Sóun hefur í för með sér aukinn kostnað og lakari gæði. Markmið við skipulagningu þjónustu ætti alltaf að vera að hámarka virði þjónustunnar, þannig að sem bestur árangur náist miðað við þá fjármuni sem kostað er til (virði = árangur/kostnaður).

Alma mun einnig fjalla um meðferðartakmarkanir við lok lífs og hvernig lög, siðareglur, vilji sjúklings/aðstandenda og persónulegt álit heilbrigðisstarfsfólks geta spilað saman í því sambandi. Þar endurspeglast hve siðferðileg stefnumörkun er mikilvæg í daglegu starfi.

Heilbrigðisþingið 15.nóvember er öllum opið og aðgangur ókeypis en mikilvægt er að gestir skrái þátttöku sína.

Skráning, dagskrá og nánari upplýsingar um þingið eru á vefnum www.heilbrigdisthing.is.

Einnig er hægt að fylgjast með þinginu á facebook

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira