Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2019 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ísland skipar ungmennafulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála

Aðalbjörg Egilsdóttir - mynd

Aðalbjörg Egilsdóttir hefur verið kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði loftslagsmála. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland skipar ungmennafulltrúa í málaflokknum. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur veitt fjármagni til þess að Aðalbjörg geti sótt loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember í umboði íslenskra ungmenna en ráðstefnan fer fram í Madrid á Spáni.

Skipan ungmennafulltrúa Íslands á sviði loftslagsmála er samstarfsverkefni Landssambands ungmennafélaga (LUF), Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Fulltrúaráð LUF kaus Aðalbjörgu á fundi sínum í gær og gátu öll aðildarfélög sambandsins boðið fram fulltrúa. Aðalbjörg er menntaður líffræðingur og starfar hjá Náttúrustofu Vesturlands þar sem hún vinnur m.a. að umhverfisvottun Snæfellsness og umhverfisfræðslu fyrir nemendur. Hún situr í Stúdentaráði og er forseti umhverfis- og samgöngunefndar ráðsins.

„Ég er þakklát fyrir að fá vettvang til að nýta þekkingu mína á umhverfismálum í þágu ungs fólks og legg áherslu á að rödd þeirra sem sækja loftslagsverkföllin verði áberandi á ráðstefnunni. Ég átta mig vel á þeim hindrunum sem eru í vegi fyrir árangri á sviði loftslagsmála og að mörgu leyti hvaða leiðir standa til boða í baráttunni fyrir betri heimi. Til þess að ná þeim markmiðum sem ríkisstjórnir heimsins hafa sett sér þarf kúvendingu í loftslagsmálum og mun ég berjast fyrir því að hagsmunir alls ungs fólks verði í fyrirrúmi,“ segir Aðalbjörg.

Það að skipa sérstaka ungmennafulltrúa á viðburði Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme) er framlag SÞ og aðildarríkjanna til að tryggja aðkomu ungs fólks að þátttöku, stefnumótun og ákvarðanatöku á öllum sviðum. Aðalbjörg kemur til með að vera hluti af sendinefnd LUF hjá Sameinuðu þjóðunum, sem er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá Sameinuðu þjóðunum.

„Ég er mjög ánægður með þetta samstarf og að við getum gert ungu fólki kleift að taka ríkari þátt í stefnumótunarvinnu í umhverfismálum á alþjóðlegum vettvangi,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

„Ég barðist lengi fyrir því að félagasamtök fengju oftar sæti við borðið og þessi ákvörðun er hluti af þeirri stefnu minni að auka þátttöku almennings við ákvarðanatöku og stefnumótun. Það er mikilvægt að rödd ungs fólks hljómi enda eiga þau sannarlega ríkra hagsmuna að gæta þegar kemur að loftslagsmálum.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira