Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Íslensku menntaverðlaunin veitt á ný

  - myndMynd: Kristinn Ingvarsson
„Það er mikilvægt að við vekjum athygli á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi hér á landi og beinum kastljósinu að því frábæra fólki sem vinnur að umbótum í menntamálum. Íslensku menntaverðlaunin eru kærkominn vettvangur til þess og ég fagna því öfluga samstarfi og einhug sem ríkir um að endurvekja þau,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í tilefni af undirritun samkomulags um Íslensku menntaverðlaunin í gær. 

Að samkomulaginu standa embætti forseta Íslands, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags um menntarannsóknir, Grunns – félags fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samtök áhugafólks um skólaþróun og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.

Verðlaun þessi voru veitt í tíð fyrri forseta frá árinu 2005 en hefur nú verið komið í ákveðinn farveg með samkomulagi milli þeirra sem að þeim standa. Verðlaunin verða veitt í þremur flokkum. Ein verðlaun verða veitt skóla eða annarri menntastofnun fyrir framúrskarandi starf. Í annan stað verða kennara sem stuðlað hefur að framúrskarandi menntaumbótum veitt verðlaun. Þriðju verðlaunin verða veitt þróunarverkefni á sviði menntunar sem stenst ítrustu gæðakröfur. Að auki verður veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem lagt hafa af mörkum við að stuðla að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.

Forseti hefur skipað Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur, skáld og rithöfund, formann viðurkenningarráðs, sem mun halda utan um framkvæmd verðlaunaveitinganna. Ráðgert er að veita verðlaunin í nóvember á næsta ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira