Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Mikil starfsánægja í íslenskum leikskólum

Kennarar, skólastjórnendur og starfsfólk leikskóla tóku í fyrsta sinn þátt í alþjóðlegri rannsókn á leikskólastiginu (e. TALIS) vorið 2018 og voru niðurstöður hennar kynntar á dögunum. Í rannsókninni er fjallað um starfshætti og viðhorf starfsfólks og stjórnenda á leikskólastigi en hliðstæðar kannanir eru einnig gerðar reglulega á grunn- og framhaldsskólastigi.

„Upplýsingar sem þessar eru okkur afar mikilvægar í þeirri stefnumótun sem nú á sér stað um framtíð íslenska menntakerfisins. Það er sérstaklega ánægjulegt hversu hátt hlutfall leikskólastjóra og starfsfólks er ánægt með starfið sitt og ég tel það endurspeglast vel í ánægju foreldra með leikskólastarf hér á landi. Við vinnum að því nú í góðri samvinnu að fjölga faglærðu starfsfólki í leikskólum og stuðla að starfsþróun á þeim vettvangi. Þá hef ég einnig sett á laggirnar starfshóp sem skila mun tillögum um hvernig við getum á heildstæðan hátt eflt leikskólastigið og styrkt þann mikilvæga grunn sem þar er lagður að menntun og þroska barna,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Átta önnur aðildaríki OECD tóku þátt í rannsókninni, þar á meðal Noregur, Danmörk og Þýskaland. Hérlendis tóku alls 208 leikskólastjórar þátt í rannsókninni og 1378 aðrir starfsmenn.

Meðal helstu niðurstaðna:
• 99% leikskólastjóra og 96% annars starfsfólks leikskóla er í heildina ánægt með sitt starf.
• Starfsfólk leikskóla hér á landi vinnur mikið saman, tekur t.d. þátt í umræðum um þroska og þarfir einstakra barna og umræðum um verkefni sem eru á döfinni í meira mæli en önnur þátttökulönd að meðaltali.
• Í tæpum helmingi leikskóla hér á landi eru yfir 11% barna með annað móðurmál en íslensku. Staðan er svipuð í Noregi, Danmörku og Þýskalandi. Hlutfall starfsmanna sem vinnur með tvítyngdum börnum eða börnum sem hafa ekki íslensku að móðurmáli er hæst hér á landi, 85%.
• Hér á landi er talsvert hátt hlutfall starfsmanna sem fæddir eru erlendis, um 13%. Hlutfallið er svipað í Noregi og Ísrael en tölur eru ekki tiltækar fyrir Danmörku og Japan.
• Aðeins 9% íslenskra þátttakenda svara því til að þeir séu sáttir við laun sín, meðaltal hinna þátttökuríkjanna er 29%.
• Hlutfall starfsfólks sem ekki hefur lokið menntun sem býr það undir að vinna með börnum er hátt hér á landi eða 36%, meðaltal í þátttökuríkjunum var 22%.
• Starfsmannavelta leikskólanna er umtalsverð og fjarvistir starfsfólks heftandi þáttur í skólastarfi að mati leikskólastjóra.

Menntamálastofnun annast framkvæmd rannsóknarinnar og finna má heildarskýrslu rannsóknarinnar á vef þeirra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira