Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2019

Jón G. Friðjónsson verðlaunahafi og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. - mynd
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar voru afhent á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember, í Gamla bíói í Reykjavík og hlaut þau að þessu sinni Jón G. Friðjónsson prófessor. Jón hefur kennt málvísindi og íslenska málfræði við Háskóla Íslands um áratuga skeið og verið meðal brautryðjenda í kennslu íslensku sem annars máls við skólann. Verðlaun Jónasar eru árlega veitt þeim einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar.

„Ég óska Jóni hjartanlega til hamingju með verðlaunin og þakka honum innilega fyrir hans merka starf á sviði kennslu og rannsókna. Hann hefur með ástríðu og hugsjón unnið íslenskunni ómælt gagn og með miðlun sinni tendrað áhuga annarra á tungumálinu, ekki síst í gegnum stórfróðlegar bækur sínar og kennsluefni,” sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sem afhenti verðlaunin. „Það er okkur hjartans mál að tryggja þróun og framtíð íslenskunnar og að því vinnum við nú með aðgerðum sem kynntar hafa verið undir yfirskriftinni „Áfram íslenska” en mikilvægur liður í þeim er að efla og auka aðgengi að íslenskukennslu og stuðla að skapandi notkun hennar.”

Í greinargerð ráðgjafanefndar segir:

„Prófessor Jón G. Friðjónsson er málvísindamaður og rannsakandi íslenskrar tungu af ástríðu og hugsjón. Prófessor Jón hefur kennt málvísindi og íslenska málfræði í Háskóla Íslands og samið kennsluefni um áratuga skeið, svo segja má að allflestir íslenskufræðingar og aðrir sem láta sig íslenska tungu einhverju varða þekki verk hans og hafi notið leiðsagnar hans á einn eða annan hátt.

Auk kennslu íslensku fyrir Íslendinga hefur Jón einnig verið meðal brautryðjenda í kennslu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands.

Hin miklu rit Jóns um íslenska orðfræði, Mergur málsins. Íslensk orðatiltæki, uppruni, saga og notkun sem fyrst kom út 1993 og síðan aukin og endurbætt 2006, Rætur málsins sem út kom 1997 og Orð að sönnu. Íslenskir málshættir og orðskviðir sem út kom 2014 , auk fjölda greina um málvísindaleg efni bera vitni um óbilandi áhuga hans og þekkingu á efninu. Í ritum þessum er fjallað um orðtök, orðasambönd, orðatiltæki, málshætti og orðskviði í íslensku máli allt frá fyrstu tíð til nútímamáls. Nú þegar við liggur að hætta steðji að þessu undarlega gamla tungumáli sem fáir tala og fram undir þetta hefur breyst tiltölulega hægt, eru þessi verk Jóns ómetanlegur sjóður fyrir þjóðina að ganga í, til að viðhalda og varðveita íslenskt tungumál og hugsun.“

Að tillögu ráðgjafanefndar verðlaunanna var einnig veitt viðurkenning í tilefni dagsins.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, veitti hljómsveitinni Reykjavíkurdætrum sérstaka viðurkenningu í tilefni af degi íslenskrar tungu árið 2019.

Í greinargerð ráðgjafanefndar segir:

„Reykjavíkurdætur komu af miklum krafti fram á sjónarsviðið fyrir um sex árum og skoruðu feðraveldið í heimi íslenskrar rapptónlistar á hólm. Þær fjölluðu strax frá byrjun um reynsluheim ungra kvenna á íslensku nútímamáli sem þær beita á skapandi og oft og tíðum ögrandi hátt. Þær urðu fyrirmyndir annarra ungra kvenna sem síðan hafa stigið á stokk og orðið áberandi í tónlistarlífinu; Reykjavíkurdætur hafa verið valdeflandi fyrirmyndir sem hafa sýnt að hægt er að fella margbrotinn reynsluheim ungra Íslendinga í orð.
Frá upphafi hafa um tíu ungar konur starfað í Reykjavíkurdætrum á hverjum tíma. Þær hafa ólíkar raddir, rappa hver með sínum hætti, en leika sér saman með tungumálið með athyglisverðum og kraftmiklum hætti. Meðlimir Reykjavíkurdætra hafa einnig komið við sögu í öðrum hljómsveitum auk þess að hasla sér völl á öðrum sviðum, svo sem í fjölmiðlum og leikhúsi.

Í inngangi að fyrsta árgangi að Fjölni, sem þótti ögrandi á sínum tíma, skrifuðu aðstandendur tímaritsins að það hljóti að vera löngun hvers og eins sem kallast vill Íslendingur að brjóta skarð í stíflurnar og veita fram lífsstraumi þjóðarinnar, í orði eða verki, eftir sínum kröftum og kringumstæðum. Reykjavíkurdætur hljóta þessa viðurkenningu fyrir að vera rödd tímans, allra fjallkvenna landsins, sem Linda Vilhjálmsdóttir orti um, fullvalda og sjálfstæðra.“

Ráðgjafanefnd vegna Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar skipuðu að þessu sinni Ingunn Ásdísardóttir, formaður, Haukur Ingvarsson og Einar Falur Ingólfsson.

Hér má finna yfirlit um þá sem hlotið hafa verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu allt frá upphafi (1996).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum