Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2019 Utanríkisráðuneytið

Innistæðutryggingar til umræðu á EES-ráðsfundi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Gunnar Pálsson sendiherra á fundi EES-ráðsins í dag - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ítrekaði á fundi EES-ráðsins í dag að ekki kæmi til greina að Ísland tæki upp tilskipun um innistæðutrygginga nema að tryggt væri að þeim fylgdi ekki ríkisábyrgð. Á fundinum lagði ráðherra áherslu á hve vel EES-samningurinn hefði reynst báðum aðilum í þann aldarfjórðung sem liðinn er frá gildistöku hans. 

EES-ráðið kom saman til fundar í Brussel í dag en það er skipað utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES og fulltrúum framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra stjórnaði fundi en Ísland er í formennsku EES-samstarfsins um þessar mundir.

Á fundinum var meðal annars rætt um framtíð innri markaðarins en EFTA-ríkin innan EES lögðu nýverið fram umsögn til ESB um málið. Sagði ráðherra að Íslendingar væru reiðubúnir til þess að leggja sitt af mörkum til þess að umgjörð og leikreglur innri markaðarins virkuðu enda væri þýðing hans fyrir hagsmuni EFTA-ríkjanna innan EES afar mikil. 

Í umræðum upptöku sérstakrar tilskipunar um innistæðutryggingar í EES-samninginn áréttaði utanríkisráðherra að ekki kæmi til greina að taka gerðina upp nema fyrir lægi að ekki yrði ríkisábyrgð á innistæðutryggingum. „Ég hef sagt það áður og ítreka það nú að ég mun sem utanríkisráðherra Íslands aldrei standa að því að Ísland samþykki á vettvangi EES samstarfsins upptöku og innleiðingu þessarar löggjafar þannig að hún feli í sér ríkisábyrgð á bankainnistæður. Hefði slík löggjöf verið í gildi á sínum tíma hefði Icesave-málið tapast fyrir dómstólum. Lærdómur sögunnar er þannig skýr,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson. 

Í umræðum um framkvæmd EES samningsins nefndi utanríkisráðherra að á 25 ára afmæli hans stæði upp úr hversu vel hann hefði reynst báðum samningsaðilum og þeirri staðreynd þyrfti stöðugt að halda á lofti. Kannanir sýndu að EES-samstarfið nyti stuðnings íslensks almennings og nýverið hefði komið út gagnleg skýrsla um kosti og galla EES aðildar.

Ráðherra sagði ennfremur að mikilvægt væri að hafa í huga ávinninginn af tveggja stoða kerfi EES-samningsins þegar framþróun innri markaðarins væri annars vegar. Þá sagði ráðherra að áhersla ESB á græna hagkerfið og orkuskipti væri í fullu samræmi við stefnu Íslands í þeim efnum enda væru Íslendingar frumkvöðlar á þessu sviði. Jafnframt væri mikilvægt að stafræn vídd innri markaðarins fengi að þróast og að stutt yrði við nýsköpun í viðskiptum þannig að evrópsk fyrirtæki gætu verið samkeppnisfær í alþjóðlegu tilliti. 

Á fundinum var af hálfu ESB komið inn á makrílveiðar Íslendinga og ólíka afstöðu Íslands annars vegar og Noregs og ESB hins vegar til slíkra veiða almennt. Ráðherra undirstrikaði að hann teldi þetta ekki rétti vettvanginn til þess að ræða málefni tengd fiskveiðistjórnun, en kom eigi að síður afstöðu Íslands á framfæri við ESB. Kvað hann Íslendinga ávallt reiðubúna til uppbyggilegra viðræðna við ESB um málið. 

Síðdegis sótti utanríkisráðherra fundi með þingmannanefnd og ráðgjafanefnd EFTA.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira