Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2019 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Gagnleg úttekt Ríkisendurskoðunar á rekstri Ríkisútvarpsins

• Krafa um skýrari aðgreiningu í bókhaldi.
• Skylt að stofna dótturfélag um samkeppnisrekstur.
• Ráðherra beinir því til stjórnar að hratt verði brugðist við ábendingum.

Að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytis hefur Ríkisendurskoðun lokið úttekt á rekstri Ríkisútvarpsins ohf. Skýrsla með niðurstöðum hefur verið send Alþingi og verður hún birt á vef Ríkisendurskoðunar. Niðurstöður og tillögur að úrbótum eru nú þegar til meðferðar í ráðuneytinu og er lögð áhersla á vandaða en skjóta afgreiðslu þeirra.

Skýrari aðgreining í bókhaldi
Ríkisendurskoðun telur að Ríkisútvarpið þurfi að ganga lengra í því en hingað til að gera formlega arðsemiskröfu til samkeppnisrekstrar og meta til fjár þau verðmæti sem felast í auglýsingatímum Ríkisútvarpsins. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Evrópulöggjöf og aðkoma Eftirlitsstofnunar EFTA hafi haft mikil áhrif á rekstrarform og hlutverk Ríkisútvarpsins. Evrópulöggjöfin heimili ríkisstuðning við fjölmiðla sem starfa í almannaþágu, en grundvallaratriði sé að stuðningurinn sé einungis nýttur í almannaþjónustu fjölmiðils en ekki til að fjármagna aðra starfsemi, t.d. samkeppni á auglýsingamarkaði. Það sé því ófrávíkjanleg krafa að fjárhagslegt bókhald sé gagnsætt og að fullu skilið á milli almannaþjónustu og samkeppnisreksturs.

Skylt að stofna dótturfélag og tryggja sjálfbæran rekstur
Ríkisendurskoðun segir að Ríkisútvarpinu ohf. beri, að óbreyttum gildandi lögum, að stofna og reka dótturfélag sem annist allan samkeppnisrekstur. Á því leiki ekki lagalegur vafi. Þá sé mikilvægt að stjórn sinni sínu fjárhagslega eftirlitshlutverki vel, svo sjálfbærni verði tryggð í rekstri Ríkisútvarpsins. „Það er mikilvægt að eyða allri óvissu um bókhald Ríkisútvarpsins og fjárhagslegan aðskilnað almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar. Ríkisendurskoðun tekur af öll tvímæli um nauðsyn þess að stofna dótturfélag fyrir samkeppnisrekstur og ég mun beina þeim tilmælum til stjórnar, að þeirri vinnu verði hraðað. Aðrar tillögur til úrbóta eru gagnlegar, ýmist ráðuneytinu, stjórn félagsins eða Alþingi sjálfu, og við tökum þær alvarlega. Það er t.d. mjög brýnt að rekstur félagsins sé sjálfbær og stjórn sinni sínu eftirlitshlutverki,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Styrkja faglegt eftirlit
Mennta- og menningarmálaráðuneyti fer með eignarhlut ríkisins og hefur faglegt eftirlit með starfsemi Ríkisútvarpsins í gegnum þjónustusamning. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að efla fjárhagslegt eftirlit stjórnar Ríkisútvarpsins og hvetur hún til þess í skýrslunni að þar fari fram regluleg kynning og umfjöllun um fjárfestingaáætlanir, fjármögnun og sjóðstreymisáætlanir félagsins til viðbótar við rekstaráætlanir, og að tryggt sé að hluti stjórnarmanna hafi sérþekkingu á fjármálum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira