Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á lögum um loftslagsmál í samráðsferli

  - myndBergþóra Njála

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi um breytingu á lögum um loftslagsmál. Frumvarpinu er m.a. ætlað að heimila setningu reglna sem varða kröfur vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt Parísarsamningnum.

Ísland hefur ásamt Noregi náð samkomulagi við Evrópusambandið um þátttöku í sameiginlegu markmiði 30 ríkja innan Parísarsamningsins. Efnislegt samkomulag náðist að mestu í lok árs 2018, en síðan hefur farið fram skoðun á lagalegum þáttum og frágangur á texta. Samkvæmt samkomulaginu eru teknar upp tvær lykilreglugerðir ESB á sviði loftslagsmála, auk reglna um bókhald og skýrslugjöf o.fl. Samkomulagið er með fyrirvara um staðfestingu Alþingis og verður þingsályktunartillaga þar um lögð fram í desember nk.

Frumvarpinu er ætlað að veita lagaheimild til að innleiða ofangreindar reglugerðir, en þær fjalla annars vegar um landnotkun, breytta landnotkun og skógrækt og hins vegar um „sameiginlega ábyrgð“, sem nær til losunar utan viðskiptakerfis ESB, s.s. frá samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og meðferð úrgangs.

Í frumvarpinu eru einnig ákvæði um breytingar á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) á fjórða tímabili viðskiptakerfisins sem varir frá 2021–2030. Lögin eins og þau eru nú taka mið af tímabilinu 2013-2020.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði um auknar vöktunarskyldur flugrekenda vegna hnattræns kerfis Alþjóðaflugmálastofnunar sem ætlað er að taka á losun frá flugumferð frá 2021 (Carbon Offsetting and Reduction Scheme, CORSIA).

Umsögnum um frumvarpsdrögin skal skilað í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 6. desember nk.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr, 70/2012, með  síðari breytingum (EES-reglur) í Samráðsgátt.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum