Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Bygging 60 rýma hjúkrunarheimilis í Árborg hafin

Svandís Svavarsdóttir og Gísli Halldór Halldórsson - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti -/ME

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Árborgar tóku fyrstu skóflustunguna að nýju hjúkrunarheimili fyrir íbúa sveitarfélaga á Suðurlandi síðastliðinn föstudag. Byggingaframkvæmdir hefjast af fullum krafti í desember. Stefnt er að því að hjúkrunarheimilið verði tilbúið til notkunar haustið 2021. Með tilkomu heimilisins fjölgar hjúkrunarrýmum á svæðinu um 25 frá því sem nú er.

Mynd: Af vef Framkvæmdasýslu ríkisinsHjúkrunarheimilið mun rísa við hlið Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, nærri bökkum Ölfusár. Byggingin verður rúmlega 4.000 fermetrar, hringlaga á tveimur hæðum með stórum og skjólgóðum garði í miðjunni. Skrifað var undir samninga um byggingu hjúkrunarheimilis á þessum stað haustið 2016 og var þá ráðist í samkeppni um hönnun þess. Arkítektastofan Urban arkitektar ehf. og LOOP architects aps. urðu hlutskörpust með frumlegri hönnun hringlaga húss með lokuðum garði í miðjunni sem bæði eykur öryggi íbúa og möguleika þeirra til útivistar.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar eru 2,9 milljarðar króna og er verkefnið fjármagnað þannig að 84% kostnaðarins greiðist úr ríkissjóði og Framkvæmdasjóði aldraðra en sveitarfélagið Árborg greiðir 16% framkvæmdakostnaðar. Fyrirtækið Eykt annast framkvæmdir samkvæmt niðurstöðum útboðs.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira