Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stuðlað að stafrænum sam- og viðskiptum yfir landamæri

Bjarni Benediktsson stýrði fundi ráðherranefndarinnar.  - mynd

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, stýrði í dag fundi norrænu ráðherranefndarinnar um stafræn málefni, sem haldinn var í Riga í Lettlandi. Fundinn sóttu ráðherrar og sendinefndir Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Nefndin nýtur nokkurrar sérstöðu í norrænu samhengi, þar sem Eystrasaltsríkin þrjú, Lettland, Eistland og Litháen eiga einnig aðild að henni, en markmið með samstarfinu er að koma á sameiginlegu, hindranalausu og öflugu stafrænu svæði í Norður-Evrópu. Samanlögð landsframleiðsla þessara ríkja jafnast á við Kanada eða Spán og því hægt að segja að saman myndi þau 12. stærsta hagkerfi heimsins.

Fundurinn fór fram samhliða 5G tækniráðstefnu á vegum lettneskra stjórnvalda, en 5G fjarskiptatæknin hefur verið í brennidepli ráðherranefndarinnar undanfarin tvö ár, auk stafvæðingar stjórnsýslu og gagnkvæmrar viðurkenningar rafrænna auðkenna. Nefndin tók ákvörðun um það í dag að frá og með árinu 2020 verði meginviðfangsefni hennar að greiða fyrir hindrunarlausum og gagnkvæmum aðgangi að stafrænum lausnum og þjónustu yfir landamæri, með rafrænum auðkennum.

„Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin eru þegar eitt þróaðasta stafræna svæði heimisins. Það er mikilvægt að við nýtum til fulls, bæði hið opinbera og einkageirinn, þá möguleika sem felast í 5G og annarri stafrænni tækni til að að leiða fram nýjar sjálfbærar og grænar lausnir,“ sagði Bjarni Benediktsson á fundinum.

Ísland lætur af formennsku í ráðherranefnd um stafræn málefni um áramótin og tekur Danmörk við.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum