Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2019 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Allir byggðakjarnar landsins með ljósleiðara eftir tengingu til Mjóafjarðar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flytur ávarp við athöfnina á Sólbrekku. Sitjandi eru Sigfús Vilhjálmsson í Brekku, Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar og Jón Björn Hákonarson, formaður Fjarskiptasjóðs. - mynd

Framkvæmdum við lagningu ljósleiðara til Mjóafjarðar er lokið og tengingar komnar í hús á svæðinu. Byggðin í Mjóafirði er seinasti byggðakjarninn sem tengdur er við ljósleiðarakerfi landsins. Allar byggðir landsins hafa því aðgang að tryggu fjarskipta- og netsambandi með tilheyrandi þjónustu og öryggi. Heimafólk fagnaði þessum tímamótum við sérstaka athöfn á Sólbrekku í Mjóafirði. Þar flutti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarp í tilefni dagsins og opnaði fyrir ljósleiðaratenginguna með táknrænum hætti.

Ljósleiðaravæðing í dreifbýli hefur gengið mjög vel á síðustu árum með verkefninu Ísland ljóstengt, sem Fjarskiptasjóður hefur umsjón með. Með styrkjum til sveitarfélaga hefur verið unnið að því sleitulaust frá árið 2016 að tengja ljósleiðara í allar byggðir og sveitabýli landsins.

Farsælt samstarf í Mjóafirði
Verkefnið í Mjóafirði var unnið í farsælu samstarfi Fjarskiptasjóðs, Neyðarlínunnar, Rarik, Mílu, Fjarðarbyggðar og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Ljósleiðari og rafstrengur var lagður um 17 km leið og flest hús hafa síðan verið tengd við ljós. Ljósleiðarinn leysir af hólmi fjallastöð fjarskipta og gamla loftlínu rafmagns. Unnið hefur verið markvisst að þessum áfanga frá árinu 2014 þegar loftlína rafmagns slitnaði efst í Austdal í 1000 m hæð. Frágangur á yfirborði klárast næsta sumar.

„Það skiptir máli að fólk hafi raunverulegt val um búsetu og hafi möguleika á að geta valið sér störf óháð staðsetningu og því er frábært að fagna þessum tímamótum með heimafólki í Mjóafirði. Segja má að boltinn hafi byrjað að rúlla í kjölfar greinar sem ég skrifaði og bar heitið „Ljós í fjós“. Þá var mér og öðrum orðið ljóst að ljósleiðaratæknin væri framtíðarlausn fyrir landið allt og ekki síst dreifbýlið. Það var orðið tímabært að tengja ljósleiðara hingað og ánægjulegt að ljúka hringnum hér með þeim mikilvæga áfanga að allir byggðakjarnar landsins eigi nú kost á góðri nettengingu. Við erum að sjá margvíslega þjónustu spretta upp sem oft er boðin eingöngu á netinu og gefa fólki jöfn tækifæri á að nýta.“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra fjarskiptamála.

Hringtenging á næsta ári
Á næsta ári er stefnt að því að leggja ljósleiðara frá Hánefsstöðum í símstöð í Seyðisfirði í samvinnu við Rarik. Næst á eftir verður unnið að því að hringtengja Neskaupstað og Eskifjörð. Byggðakjarnarnir tveir eru eingöngu tengdir frá Reyðarfirði en með hringtengingu er fjarskiptaöryggi tryggt til mikilla muna.

Fjarskiptasjóður og Neyðarlínan ohf. gerðu fyrr á árinu samkomulag um allt að 70 m.kr. framlag sjóðsins til verkefna sem miða að uppbyggingu fjarskiptainnviða utan markaðssvæða. Lagning ljósleiðara til Mjóafjarðar og hringtenging byggðarlaga á svæðinu falla undir þetta samkomulag en einnig verkefnið að leggja ljósleiðara yfir Kjöl frá Reykholti í Skagafjörð. 
Samstarf fjarskiptasjóðs og Neyðarlínu um lagningu ljósleiðara hefur aukist síðustu ár en markmiðið er að bæta farsímasamband á þjóðvegum, fjölförnum ferðamannastöðum, rýmingarsvæðum við eldstöðvar og á hafi úti. 

Ísland ljóstengt
Það er skýr stefna stjórnvalda að öll heimili og fyrirtæki landsins eigi kost á ljósleiðaratengingu. Tilgangurinn er að bæta búsetuskilyrði og fjölga tækifærum landsmanna til atvinnusköpunar um land allt. Markmiðið er að 99,9% lögheimila og fyrirtækja eigi kost á 100 Mb/s þráðbundinni nettengingu í árslok 2021. 

Verkefnið Ísland ljóstengt er eitt af lykilverkefnum í byggðaáætlun stjórnvalda en markmið þess er að byggja upp ljósleiðarakerfi utan markaðssvæða í dreifbýli um allt land. Það er í umsjá fjarskiptasjóðs og hefur staðið yfir frá árinu 2016. Veittir hafa verið samvinnustyrkir úr Fjarskiptasjóðir en einnig hafa sveitarfélög átt kost á að sækja um byggðastyrki á grundvelli byggðaáætlunar. 

Stefnt er að því að stjórnvöld geri síðustu styrktarsamninga við sveitarfélög á grundvelli Ísland ljóstengt árið 2020 með það að markmiðið að framkvæmdum þeirra ljúki fyrir árslok 2021.

Tengt efni

 
  • Sigfús í Brekku og Sigurður Ingi með ljósleiðarann í hendi sér.
  • Heimafólk í Mjóafirði fjölmennti til að fagna komu ljósleiðarans.
  • Unnið að lagningu ljósleiðara til Mjóafjarðar.
  • Unnið að lagningu ljósleiðara til Mjóafjarðar.
  • Horft yfir Mjóafjörð í sumar þegar framkvæmdir við lagningu ljósleiðara stóðu yfir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira