Hoppa yfir valmynd
4. desember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Landsbyggðarverkefni félagsmálaráðherra stuðlar að húsnæðisuppbyggingu í Súðavíkurhreppi

Gísli Jón Kristjánsson, Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Hrafnshóla ehf. kynntu fyrirhugaða uppbyggingu fyrir Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti sér í gær áformaða húsnæðisuppbyggingu í Súðavíkurhreppi en sveitarstjórn Súðavíkurhrepps tók á fundi sínum 21. nóvember síðastliðinn ákvörðun um að kosta byggingu þriggja nýrra íbúða í hreppnum í samvinnu við byggingafélagið Hrafnsól ehf. Ekkert hefur verið byggt af íbúðarhúsnæði á Súðavík í um sautján ár.

Fyrirhugað er að byggja fimm íbúða raðhús á lóð Grundarstrætis 5-7-9. Mun Súðavíkurhreppur kosta byggingu þriggja íbúða en Hrafnshóll ehf. eiga og reka tvær íbúðir í óhagnaðardrifnu leigufélagi. Íbúðirnar verða þriggja og fjögurra herbergja, þær stærri um 90 fermetrar.

Framkvæmdin fellur að tilraunaverkefni Íbúðalánasjóðs um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni. Sömuleiðis þeim breytingum á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs sem Ásmundur Einar undirritaði í haust og kveða á um að sveitarfélög, einstaklingar og óhagnaðardrifin félög geti tekið lán hjá Íbúðalánasjóði á stöðum þar sem önnur fjármögnun stendur ekki til boða.

Áformað er að mæta útgjöldum vegna uppbyggingarinnar með sölu á fasteignum í eigu Súðavíkurhrepps, en hreppurinn á orðið talsvert af bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Að öðru leyti mun fjármögnun verða með láni frá Íbúðalánasjóði.

Ásmundur Einar hefur haft forgöngu um að breyta útlánareglum Íbúðalánasjóðs ásamt fyrrnefndri reglugerð en hvoru tveggja er ætlað að stuðla að uppbyggingu á köldum markaðssvæðum á landsbyggðinni. „Það er ánægjulegt að sjá áhrifin vera raungerast á stöðum þar sem lítið sem ekkert hefur verið byggt árum og áratugum saman þrátt fyrir að eftirspurn sé til staðar,” sagði Ásmundur Einar þegar hann kynnti sér aðstæður.

Stefnt er að því að tvær af þeim íbúðum sem um ræðir muni gegna sambærilegu hlutverki og húsnæði í eigu Súðavíkurhrepps að Hlíf II í Torfnesi á Ísafirði sem ætlað er eldri borgurum. „Þannig verður eldri íbúum hreppsins, sem kjósa að minnka við sig eða komast í hentugra húsnæði, gert kleift að búa í Súðavík í stað þess að flytjast á Ísafjörð. Ef eftirspurn eldri íbúa verður ekki fyrir hendi verða íbúðirnar leigðar á almennum markaði. Þá er ekkert því til fyrirstöðu að þær verði seldar ef eftirspurn verður eftir því. Þó er stefnt að því að hreppurinn eigi alltaf að minnsta kosti tvær íbúðir fyrir eldri borgara auk félagslegs húsnæðis eftir þörfum,” segir Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðarvíkurhrepps.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum