Hoppa yfir valmynd
9. desember 2019 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Áform um breytingar á lögum um rammaáætlun kynnt í samráðsgátt

Vindmyllur - myndJohannes Jansson/norden.org

Umhverfis- og auðlindaráðuneyti hefur kynnt í samráðsgátt áform um breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Áformin eru liður í að móta opinbera stefnu til framtíðar um vindorku hér á landi og leyfisveitingarferli hennar.

Umhverfis- og auðlindaráðherra setti fyrr á árinu á fót starfshóp til að skoða málefni vindorku í ljósi áherslu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á nauðsyn lagasetningar um málaflokkinn. Í hópnum eiga sæti fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins auk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Meðal verkefna hópsins er að setja fram tillögur um hvernig ná megi sátt um hagnýtingu vindorku hér á landi og vinna að því búnu drög að nauðsynlegum breytingum á lögum nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun).

Meðal þess sem fram kemur í áformaskjalinu er að vindur sé ekki jafn staðbundinn orkukostur og hefðbundnari virkjunarkostir enda hægt að hagnýta hann á flestum stöðum landsins. Virkjun vindorku krefjist almennt styttri undirbúnings- og framkvæmdatíma en vatnsafls- eða jarðvarmavirkjanir. Á hinn bóginn sé mikilvægt að móta opinbera stefnu um hvar eigi og hvar eigi ekki að byggja upp vindorkumannvirki í því skyni að koma í veg fyrir að vindorkuver séu byggð á svæðum sem ekki henti fyrir slíka uppbyggingu.

Markmið þeirra breytinga sem lagðar verða til á lögunum, er að málsmeðferð og meðhöndlun vindorku innan rammaáætlunar taki mið af séreðli vindorkunnar sem orkukosts. Gert er ráð fyrir að ákvörðun um staðsetning vindorkuvera byggist á heildstæðu mati sem taki til umhverfis-, samfélags- og kerfislægra þátta. Þá er gert ráð fyrir að ferli vegna mats á virkjunarkosti og töku ákvarðana um leyfi, verði markvissara, einfaldara og skjótara þar sem byggt verði á skýrri stefnumörkun um staðsetningu slíkrar starfsemi.

Umsögnum um áformin skal skilað í samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 2. janúar 2020.

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 48/2011 um verndar og orkunýtingaráætlun á samráðsgátt.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira