Fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2021: Sigurður Guðjónsson
Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur tilkynnt að fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2021 verði Sigurður Guðjónsson. Feneyjartvíæringurinn er alþjóðleg myndlistarsýning helguð samtímalist og einn elsti og virtasti listviðburður heims. Til hans var stofnað árið 1895 en Ísland hefur tekið þátt í tvíæringnum frá árinu 1960.
Sigurður Guðjónsson á yfir tuttugu einkasýningar að baki hér heima og erlendis en hann hlaut auk þess Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2018 fyrir verk sitt Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Hans nýjasta verk ber titilinn Enigma og verður verkið meðal annars til sýnis í Kennedy Center í Washington, Adler Planeterium í Chicago og Carnegie Hall í New York á umfangsmikilli sýningarvegferð sinni um heiminn sem nú stendur yfir.
Það er mikill heiður fyrir þann íslenska myndlistarmann sem valinn er til þátttöku á tvíæringnum hverju sinni. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur umsjón með íslenska skálanum fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis.