Hoppa yfir valmynd
11. desember 2019 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Frumvarp til nýrra laga um fjarskipti birt í samráðsgátt

Drög að frumvarpi til nýrra laga um fjarskipti og breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 9. janúar 2020.

Markmið fyrirhugaðra laga er að tryggja aðgengileg, greið, hagkvæm, skilvirk og örugg fjarskipti hér á landi. Einnig er þeim ætlað að stuðla að virkri samkeppni á fjarskiptamarkaði og auka vernd og valmöguleika neytenda. Öllum landsmönnum og fyrirtækjum verði, eftir því sem unnt er, tryggður aðgangur að fjarskiptaþjónustu og háhraðanetum. Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum um fjarskipti frá árinu 2003 en lagt er til að ný lög taki gildi 1. janúar 2021.

Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði hér á landi ný fjarskiptalöggjöf ESB (BEREC-reglugerð ESB nr. 2018/1971 og EECC-tilskipun ESB nr. 2018/1972). EECC-tilskipunin (e. European Electronic Communications Code Directive eða Kóðinn) er ný grunngerð; með henni hafa gildandi meginefnisreglur um fjarskipti verið endurskoðaðar.

Meginmarkmið Kóðans eru tvíþætt: Annars vegar að koma á innri markaði fyrir fjarskiptanet og -þjónustu sem mun efla útbreiðslu og upptöku neta með mjög mikla flutningsgetu (þ.e. háhraðaneta), sjálfbæra samkeppni og auka öryggi fyrir notendur. Hins vegar að tryggja framboð af hágæðaþjónustu í Evrópu sem er öllum aðgengileg á viðráðanlegu verði.

Ráðuneytið hvetur fólk til að kynna sér frumvarpið og senda inn umsögn eða ábendingar ef tilefni er til fyrir 9. janúar nk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum