Hoppa yfir valmynd
12. desember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Heildstæðar tillögur um betrun fanga – ríkisstjórnin samþykkir að þeim verði fylgt eftir

 Ásmundur Einar Daðason, félags og barnamálaráðherra, Tolli Morthens, formaður starfshópsins og Agnar Bragason, sem var hópnum meðal annarra til ráðgjafar. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skipaði í júní 2018 starfshóp um bættar félagslegar aðstæður einstaklinga sem lokið hafa afplánun refsingar í fangelsi. Ráðherra skipaði Þorlák „Tolla“ Morthens, myndlistarmann formann starfshópsins en upphaflegt markmið hans var að skoða hvernig bæta mætti félagsleg úrræði fyrir fanga að afplánun lokinni. Ásmundur Einar tók formlega við skýrslu hópsins við athöfn á vinnustofu Tolla í Reykjavík í dag.

Við gerð skýrslunnar var meðal annars horft til fyrirkomulags á Norðurlöndunum og í Englandi en að mati starfshópsins er ljóst að bataúrræði séu ekki tæk nema horft sé á heildrænan hátt á allt tímabilið, frá því að dómur er kveðinn upp þar til eftir afplánun. Í skýrslunni er lagt til að boðið verði upp á fjölbreytta og einstaklingsmiðaða þjónustu og ráðgjöf á meðan beðið er eftir betrunarvist. Þjónustan verði bæði fyrir fanga og fjölskyldur þeirra, auk þess sem fjölbreytt úrræði standi þeim til boða að vist lokinni.

Í skýrslu hópsins er lagt til að við upphaf fangavistar verði hægt að velja um tvær leiðir, annars vegar bataleið og hins vegar refsileið. Föngum í bataleið verði þá boðin fjölbreyttari og einstaklingsmiðaðri úrræði en nú standa til boða. Megináhersla verði lögð á menntun, starfsendurhæfingu, sálfræðiþjónustu, félagsráðgjöf og í þeim tilvikum sem það á við, fíkniráðgjöf. Sérstök áhersla er lögð á sveigjanleika og að boðið sé upp á að ganga inn í úrræði á hvaða stigi sem er. Þá ætti þeim sem hætti ástundun ávallt að standa til boða að hefja ástundun að nýju. Lagt er til að opnað verði svokallað Batahús þar sem boðið verður upp á áframhaldandi úrræði að fangavist lokinni.

„Ávinningur samfélagsins af því að stuðla að betrun fanga er mikill og augljós. Til þess að einstaklingar velji þá leið þarf ávinningur þeirra að vera áþreifanlegur. Þá er mjög brýnt að horfa á betrunartímabilið í heild og leggja áherslu á mikilvægi samvista við fjölskyldu og aðgengi nánustu aðstandenda að fjölbreyttri ráðgjöf og þjónustu sem þeir geta þurft á að halda. Tillögur starfshópsins taka til þessara mikilvægu þátta,“ sagði Ásmundur Einar þegar hann tók á móti skýrslunni.

Tolli leiðir vinnuna áfram

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að settur verði á fót stýrihópur undir formennsku félagsmálaráðuneytisins með breiða skírskotun sem falið verði að fylgja eftir tillögum skýrslunnar. Ásmundur Einar tilkynnti jafnframt í dag að hann hefði náð samkomulagi við Tolla um að leiða vinnuna áfram.

„Það er fagnaðarefni að þessar tillögur séu komnar fram en það er til lítils ef þeim fylgja ekki raunverulegar aðgerðir. Það er því afar ánægjulegt að ríkisstjórnin skuli hafa samþykkt að þessum tillögum verði fylgt eftir með sérstökum stýrihópi og einnig að Tolli hafi fallist á að leiða þann hóp. Þannig höldum við áfram að leiða saman opinbera aðila og grasrót í þágu mikilvægs málefnis sem er lykilatriði ef við ætlum okkur að ná árangri í þessari vinnu,“ segir Ásmundur Einar. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum