Hoppa yfir valmynd
16. desember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra undirritar samning um formlegt samstarf stjórnvalda við ungmenni

Sigurður Helgi Birgisson, verkefnisstjóri og starfandi framkvæmdastjóri Landssambands ungmennafélaga, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, handsöluðu samkomulagið fyrir helgi. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Sigurður Helgi Birgisson, verkefnisstjóri og starfandi framkvæmdastjóri Landssambands ungmennafélaga (LUF), hafa gert með sér samstarfssamning sem ætlað er að tryggja samstarf stjórnvalda við ungmenni í yfirstandandi vinnu innan félagsmálaráðuneytisins sem snýr að málefnum barna og ungmenna. Samningurinn gildir til 31. maí næstkomandi.

Í samstarfinu felast reglulegir samráðsfundir LUF og félags- og barnamálaráðherra þar sem ráðherra getur óskað eftir áliti LUF á tilteknum málefnum. Sömuleiðis sérstök álitsgjöf LUF sem snýr meðal annars að rýni frumvarpa og/eða annars efnis. Samningurinn felur einnig í sér að LUF móti tillögur sem afhentar verði ráðherra við lok samningstímans um breytt verklag með aukinni áherslu á samráð við ungmenni. Þær skulu einnig taka til þess hvernig stjórnvöld geti staðið að mati á mögulegum áhrifum á málefni og aðstæður ungmenna við stefnumótun, ákvarðanatöku og samningu löggjafar.

„Síðastliðið vor samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína þess efnis að allar stórar ákvarðanir sem og lagafrumvörp sem varða börn og ungmenni skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi þeirra. Hér erum við að fylgja þeirri ákvörðun eftir. Gert er ráð fyrir að út úr þessu samstarfi komi aðgerðaráætlun sem stjórnvöld taki mið af og tryggi, með markvissum hætti, raunverulega þátttöku barna og ungmenna,“ sagði Ásmundur Einar við undirritunina.

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum