Hoppa yfir valmynd
16. desember 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Yfir hundrað sóttu kynningarfund um útboð á hönnun og þróun stafrænnar þjónustu

Fjölmargir sóttu kynningarfund vegna útboðsins. - mynd

Mikill áhugi var á kynningu útboðs um hönnun og þróun stafrænnar þjónustu hins opinbera sem fram fór í dag. Stafrænt Ísland, fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytisins, stóð fyrir kynningunni. Um 115 aðilar frá um 40 fyrirtækjum mættu á fundinn auk þess sem um 20 aðilar fylgdust með streymi á YouTube.

Útboðið er liður í aðgerðaráætlun um eflingu stafrænnar þjónustu sem ríkisstjórnin samþykkti í maí sl. Um er að ræða heildstætt útboð fyrir ríkisstofnanir og ráðuneyti sem snýr að uppbyggingu miðlægrar þjónustugáttar hins opinbera á island.is, eflingu þjónusta á gagnaflutningslaginu Straumnum (X-Road) og stafvæðingu þjónustuferla sem snúa að almenningi og fyrirtækjum. Markmiðið með útboðinu er að þjónusta ríkisins verði aðgengilegri og að notendur geti afgreitt sig sjálfir sem og nálgast gögn sem hið opinbera býr yfir um viðkomandi.

Í útboðinu er óskað eftir teymum sem vinna með Stafrænu Íslandi og stofnunum í hönnun og þróun á stafrænni þjónustu. Umfang útboðsins er verulegt og geta allt að 18 teymi unnið að verkefninu samtímis og áætlaður tímafjöldi er 40-60 þúsund tímar á næstu tveimur árum.

Á fundinum kynntu Einar Birkir Einarsson og Jónatan Arnar Örlygsson hjá Stafrænu Íslandi, Hafdís Vala Freysdóttir frá Ríkiskaupum og Bjarni Júlíusson verkefnastjóri forsendur og framkvæmd útboðsins. Tilboð verða gerð opinber þann 15. janúar og miðað er við að teymin hefjist handa um miðjan febrúar 2020.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira