Hoppa yfir valmynd
17. desember 2019 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Ísland áfram í efsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins um kynjajafnrétti

Ísland situr ellefta árið í röð í efsta sæti á kynjajafnréttislista Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum. Samkvæmt nýútkominni skýrslu ráðsins mun það taka tæpa öld að ná fram fullkomnu kynjajafnrétti í heiminum ef fram fer sem horfir.

Þetta er í fjórtánda sinn sem Alþjóðaefnahagsráðið gefur út skýrsluna Global Gender Gap Report. Hún tekur til 153 ríkja og þar er metin frammistaða þeirra við að ná fram kynjajafnrétti á fjórum meginsviðum: Stjórnmálum, menntun, atvinnu og heilbrigði. 

Í skýrslunni fá ríkin einkunn þar sem 100 stig tákna fullkomið jafnrétti. Ellefta árið í röð situr Ísland í efsta sæti listans með 87,7 stig og bætir sig um 0,02 stig frá fyrra ári. Þar á eftir koma Noregur, Finnland og Svíþjóð. Í fimmta sæti er svo Mið-Ameríkuríkið Níkaragva. Í Pakistan, Írak og Jemen búa konur við mest misrétti.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra: „Ísland hefur um nokkurt skeið komið vel út í alþjóðlegum samanburði hvað varðar jafnrétti kynjanna. Slíkar viðurkenningar eru mikilvægar enda varpa þær ljósi á þann árangur sem náðst hefur hér á landi. Þann árangur má ekki síst þakka öflugri kvennahreyfingu en einnig kerfisbundnum aðgerðum stjórnvalda á borð við almenna leikskóla, fæðingarorlof beggja foreldra og öfluga jafnréttislöggjöf. En við vitum líka að við eigum langt í land og það birtist ekki síst í tölulegum upplýsingum um kynbundið ofbeldi, sem er bæði orsök og afleiðing misréttis kynjanna. Þetta er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og ég legg áherslu á það bæði hér heima og erlendis að þótt Ísland hafi náð góðum árangri þá er hér enn verk að vinna. Markmið okkar á að vera að ná heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynjanna sem allra fyrst og með samhentu átaki er það mögulegt.“

„Úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins sýnir að Ísland er í fararbroddi í heiminum þegar kemur að jafnrétti kynjanna enda eru jafnréttismál skilgreind sem grundvallarmannréttindi og forsenda framfara og þróunar í utanríkistefnu okkar. Jafnréttismál eru leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands, ein birtingarmynd þess er Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktur hefur verið á Íslandi um árabil,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra en í gær undirrituðu þau Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóri UNESCO, samkomulag um Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu sem Jafnréttisskólinn heyrir undir.

Skýrsla Alþjóðaefnahagsráðsins um kynjajafnrétti.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira