Hoppa yfir valmynd
17. desember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Rannsóknarnefnd almannavarna virkjuð

Dómsmálaráðherra hyggst virkja rannsóknarnefnd almannavarna sem er sjálfstæð nefnd sem starfar í umboði Alþingis.

Nefndinni er ætlað að rýna og meta framkvæmd almannavarnaraðgerða þannig að draga megi lærdóm af reynslunni og stuðla með þeim hætti að umbótum. Með þessu fyrirkomulagi er ætlunin að koma í veg fyrir að framkvæmdavaldið rannsaki eigin aðgerðir eða þeirra aðila sem starfa á ábyrgðarsviði þess.

Ekki hefur verið sett reglugerð um útfærslu á verkefnum hennar og störfum sem hefur gert það að verkum að nefndin hefur aldrei tekið til starfa að fullu. Dómsmálaráðherra hefur gert ráðstafanir til að virkja nefndina og tryggja henni fjármuni til rannsóknar og skýrslugerðar í kjölfar óveðursins í síðustu viku sem og sett í algjöran forgang að ljúka við gerð reglugerðarinnar í komandi viku.

Nefndin mun funda í þessari viku en henni er ætlað að rannsaka þær áætlanir sem stuðst var við þegar hættuástandið skapaðist og hvernig viðbragðsaðilar brugðust við, þar á meðal vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar, samhæfingar- og stjórnstöðvar, lögregla, (aðgerðastjórn lögreglustjóra), slökkvilið, landhelgisgæsla og almannavarnanefndir.

Í dómsmálaráðuneytinu er verið að leggja lokahönd á stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum til þriggja ára og er þess vænst að þeirri vinnu verði lokið á fyrri hluta næsta árs. Dómsmálaráðherra fjallaði um þetta á Facebook síðu sinni og í ræðu á Alþingi í dag.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira