Hoppa yfir valmynd
17. desember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Silk Road fjármunir renna í sérstakan löggæslusjóð

Alþingi hefur samþykkt að setja að setja sérstaka fjármuni vegna alþjóðlegrar samvinnu lögreglunnar í sérstakan löggæslusjóð.

Ógn vegna skipulagðrar brotastarfsemi hefur aukist hér á landi sem og nauðsyn alþjóðlegrar samvinnu við rannsóknir sakamála. Aðstoð íslenskra löggæsluyfirvalda í máli kennt hefur verið við Silk Road reyndist lykilþáttur í að klára málið og lagði lögreglan fram umtalsverða aðstoð í málinu sem skilaði sér í að uppræta ólögmæta starfsemi. Umtalsvert fé var gert upptækt í formi sýndargjaldmiðilsins Bitcoin. Ríkissjóður fékk 15% heildarávinnings eða rúmlega 355 milljónir króna og hefur nú verið lögfest að þeir fjármunir renni í sérstakan löggæslusjóð. Fjármununum er ætlað að efla tækjabúnað lögreglu til að hún sé sem best í stakk búin og búi yfir nauðsynlegum búnaði til að takast á við skipulagða brotastarfsemi.

„Alþjóðleg samvinna verður mikilvægari og mikilvægari þegar landamæri brota verða óskýrari og óskýrari og skipulögð glæpastarfsemi líkt og þessi stöðvuð með aðkomu fleiri ríkja og góðri samvinnu. Það er mikilvægt að lögreglan okkar sé reiðubúin að takast á við slík mál og sinna alþjóðlegri samvinnu,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á Facebooksíðu sinni, en hér má lesa færslu ráðherra á Facebook.

Í kjölfar réttaraðstoðarinnar kom fram að bandarísk stjórnvöld hefðu hug á að deila þeim ávinningi sem gerður var upptækur við rannsókn málsins með íslenskum stjórnvöldum, m.a. á grundvelli tveggja alþjóðasamninga á vegum Sameinuðu þjóðanna, Palermó-samningsins og samnings gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni sem Ísland og Bandaríkin eru bæði aðilar að. Í þeim samningum er gert ráð fyrir því að ríki geti sín á milli gert tvíhliða samninga um skiptingu ólögmæts ávinnings (e. asset sharing), annars vegar á almennum grundvelli eða hins vegar í tengslum við einstaka mál. Þá er í 2. mgr. 69. gr. g almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að finna heimild dómsmálaráðherra til að ákveða að upptæku fé sé skipt milli íslenska ríkisins og annars ríkis eða ríkja.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira